Website Counter
Hit Counters

Monday, May 29, 2006

Helgin sem leið...

Róleg helgi að baki hjá Naglanum.

Kíkti á Pravda á föstudagskvöld til að fagna heimkomu Lovísu frá Leeds. Þessi staður hefur svosem aldrei verið minn tebolli en það skipti ekki máli þar sem maður var aðallega mættur til að hitta skvísurnar úr MR og viðhengin þeirra.
Ég fór samt bara snemma heim enda nóg að gera í rannsóknarmálum og þýðir ekkert að vera tuskulegur þessa dagana.
Svo er Naglinn líka í bindindi.

Laugardagurinn var tekinn snemma að venju. Byrjaði á að fara í brennslu og fór svo í badminton seinna um daginn með Línu. Það var þrælskemmtilegt, en þetta var jómfrúarspilið mitt. Ekki spurning að ég prófa badmintonið aftur.
Fékk líka harðsperður á mjög skrýtna staði, nýir vöðvar sem eru ekki oft notaðir þurftu allt í einu að spreyta sig, sérstaklega þessir í framhandleggnum.

Laugardagskvöldið var dapurt og fólst aðallega í sjónvarpsglápi en Greys Anatomy glápmaraþon var einkennandi þessa helgina ásamt Suður-Amerískri ræmu, Cronicas, sem var nokkuð góð.
Reyndi að þrauka yfir kosningasjónvarpinu en var enginn kandídat í það enda sofnuð vel fyrir miðnætti.

Sunnudagurinn var líka tekinn snemma og ég skellti mér á æfingu í World Class til tilbreytingar.
Ég er alveg við það að fá nett ógeð á Hreyfingu þar sem ég er þar nánast öllu stundum þessa dagana, bæði að æfa og með rannsóknina, svo það var nauðsynleg að breyta til.
Klassinn stóð auðvitað fyrir sínu með gæðatækjum og handklæði.

Ég var bara nokkuð sátt við úrslit kosninga enda komst minn maður, Dagur Bergþóruson Eggertsson, inn ásamt þremur kollegum sínum. Ég hefði þó viljað sjá fleiri atkvæði falla Samfylkingunni í vil en það verður víst ekki á allt kosið í þessu lífi.

Það verður samt fróðlegt að sjá hverjir fara í meirihlutasamstarf. Það er víst í deiglunni núna að Sjálfstæðisflokkurinn og Frjálslyndir séu að mynda meirihluta en þær raddir hafa samt verið uppi um að vinstri flokkarnir ætli kannski að mynda meirihluta.
Mér finnst að Sjálfstæðisflokkurinn eigi að fá að spreyta sig í borginni og mynda samstarf með Frjálslyndum.
Ætli við fáum ekki Vilhjálm sem borgarstjóra, útúrbótoxaðan (skiptir aldrei um svip) með rósrauðar varir og fínu hárkolluna sína.
En hann er svosem ekkert verri fyrir það, greyið, og verður eflaust fínn borgó.

Friday, May 26, 2006

Föstudagur enn og aftur...

Það er naumast að þetta kvef mitt ætlar að vera þrálátt. Ég er bara ekki að ná þessu úr mér, og er komin með verki í eyrun og hellu og er þreytt og slepjuleg. Djö...hvað ég er orðin pirruð á þessu, ég vil vera hraust enda er ég Nagli og þeir verða ekki veikir og hananú.

Ég er barasta orðin svolítið spennt fyrir þessum kosningum á morgun, ótrúlegt en satt. Ég sem hef aldrei haft neinn áhuga á pólitík, er núna farin að fylgjast með skoðanakönnunum, hlusta á frambjóðendur flokkana í morgunútvarpinu og er jafnvel að hugsa um að þrauka kosningavökuna annað kvöld.
Ojjj hvað ég er mikill nörd!!

Það er skrýtið hvað maður er fljótur að aðlagast breyttum aðstæðum.
Fyrst eftir að ég kom hingað heim á Klakann fór ég nánast að skæla í Bónus yfir verðlaginu og rétti afgreiðslukonunni kortið með miklum trega.
Svo fór ég að versla í gær og fannst það bara ekkert svo dýrt, samt var ég að borga nákvæmlega það sama og í fyrsta skiptið.
Það er kannski þess vegna sem ég fæ oft dræmar undirtektir frá samlöndum mínum þegar ég byrja að röfla um hvað allt sé fáránlega dýrt og erfitt að lifa hérna. Fólk er einfaldlega orðið vant þessu brjálæði og það finnst mér ekki gott ástand. Við eigum að spyrna við þessu rugli og ekki láta bjóða okkur að borga hátt í 200% meira fyrir matvörur en aðrir Evrópubúar.
Þegar samgöngur milli landa eru orðnar jafn auðveldar og í dag, þá trúi ég ekki að það sé hægt að réttlæta þetta himinháa verðlag með að við búum í rassgati og það sé svo erfitt að flytja allt til okkar.
Auðvitað hefur stærð markaðarins eitthvað að segja með þessum örfáu hræðum sem byggja skerið en fyrr má nú rota en dauðrota.

Vér mótmælum allir!!

Tuesday, May 23, 2006

Krakkaormur

Ég var að hlusta á Gísla Martein í útvarpinu áðan og hann var m. a. að tala um leikskóla-og grunnskólamál borgarinnar.
Margt sem hann sagði var mjög gott, og leist mér vel á stefnu þeirra Sjálfstæðismanna um að leysa fyrst mannekluvandann og lækka leikskólagjöld um 25% og tryggja að allir fái leikskólapláss, frekar en að gera þá gjaldfrjálsa og enginn til að sinna börnunum.
Ekki misskilja samt að ég sé orðin stuðningsmanneskja bláu handarinnar.
Það fór ekkert smá í taugarnar á mér að Gísli Marteinn talaði alltaf um "krakka" en ekki "börn", sem mér finnst alltaf vera niðrandi orð sem maður notar um börn sem eru óþekk eða pirrandi.

Ég er líka búin að kjósa. Snorri þurfti nefnilega að kjósa utankjörstaðar því hann fór aftur til Edinborgar í morgun, svo ég notaði tækifærið og kaus bara líka til að sleppa við geðveikina á laugardaginn.
Mér fannst frekar einkennilegt að maður setur undirritaðan miða með nafninu manns og lögheimili með kjörseðlinum í kassann. Reyndar er kjörseðillinn í sér umslagi en mér er alveg sama, það er ekkert mál fyrir óprúttna að kíkja á hvað maður kaus.
Ekki það að mér væri ekki sama þó það gerðist, og býst ekki við að gsm-inn minn verði hleraður af ríkisstjórninni vegna þess hvaða flokk ég kaus.

Lifi lýðræðið!

Monday, May 22, 2006

Ice ice baby

Hvað er að gerast með þetta veður á þessu skeri?? Það var -1 gráða kl. 06 í morgun...það er 22. maí nota bene!

Á bömmer dauðans vegna óléttuspurningarinnar fór ég í fitumælingu á föstudaginn.
Niðurstaðan var 11% fita, sem verður bara að teljast nokkuð gott, sem þýðir að ég hef misst 6% fitu síðan í haust.
Svo ég hætti all snarlega að vera á bömmer og hætti líka við átakið mikla.
Ég er greinilega bara með svona náttúrulegan bumbumaga og get lítið gert í því.

Fórum í glæsilegt brúðkaup á laugardaginn hjá Þór og Guðlaugu. Athöfnin var í Fríkirkjunni í Rvk og veislan var haldin í sal í Kópavogi.
Maturinn var geggjaður, kalkúnn og nautalund með allskonar girnilegu meðlæti. Svo var súkkulaði karamellukaka í eftirrétt.
Naglinn lét að sjálfsögðu ekki sitt eftir liggja og fór margar ferðir á hlaðborðið.
Svo var dansað fram eftir nóttu. Ég var bláedrú en skemmti mér samt konunglega og dansaði eins og vitleysingur.

"Nemo saltat sobrius nisi forte insanit" (enginn dansar ódrukkinn nema ruglaður sé) er bara kjaftæði.

Gagnasöfnun fyrir rannsóknina gengur vel og mér sýnist að þetta ætti bara að nást allt saman, en fjölmargir hafa boðist til að taka þátt og er ég afar þakklát öllum sem hafa og ætla að taka þátt.
Þið eruð yndisleg!!

Friday, May 19, 2006

Sælla að gefa en þiggja

Ég gaf blóð í gær í fyrsta sinn.
Ég er ótrúlega stolt af sjálfri mér fyrir að hafa loksins drifið í því en hingað til hef ég ekki lagt í þetta sökum gríðarlegrar sprautu- og nálahræðslu.
En Ingunn og Birna systir hennar voru með mér og það munaði miklu að hafa móralskan stuðning á meðan á þessari hörmung stóð.
Þetta var síðan ekki eins hræðileg lífsreynsla og ég hafði gert ráð fyrir, þó að ég hafi ekki verið mikill nagli á meðan þessu stóð. Ég passaði bara að líta aldrei á nálina né blóðpokann.
Nú get ég samt ekki beðið eftir að gefa aftur blóð.
Hjúkkan sagði að ég væri eðal-blóðgjafi, með lágan blóðþrýsting, lágan hvíldarpúls, stálhraust og með svo flottar og þykkar æðar að þær væru eins og blóðkranar eins og hún orðaði það.
Fyrir utan það að ég er í O mínus, sem gengur í alla.
Það voru víst tveir sjúklingar á Landsanum í gær sem voru að blæða út, svo vonandi gátu þeir notað mitt blóð, eða Ingunnar og Birnu og þá höfum við kannski bjargað mannslífi. Geri aðrir betur!!
Ingunn og Birna, við erum hetjur!!

Ég hitti gamlan kunningja úr ræktinni í Hreyfingu í gær sem benti á magann á mér og spurði hvort ég væri ófrísk.
Já gott fólk, þið getið rétt ímyndað ykkur hvaða áhrif þessi spurning hafði á mig. Nú ætla ég í átak dauðans þangað til ég fæ rennisléttan maga.
Þar sem ég er frekar ströng við sjálfa mig þá er svolítið erfitt að gera dramatískar breytingar, en ég held að eftirfarandi ætti að virka: Enginn nammidagur meir, taka brennslu aftur seinnipartinn eftir lyftingaæfingu, sleppa sojamjólkinni og rúsínum út á hafragrautinn og rösk ganga í hádeginu.
Allar hugmyndir um átaksaðgerðir eru vel þegnar.
Það er ekki gaman að hafa gengið um bæinn undanfarið með lafandi vömb svo fólk hefur haldið að ég sé með barni.
Grátur og gnístran tanna!!

Thursday, May 18, 2006

Skjotari en skugginn að skjota

Það er lítið að frétta úr lífi Naglans þessa stundina.
Dagarnir hafa aðallega farið í æfingar, rannsóknavinnu og úrvinnslu gagna.
Svo ég er nánast allar vökustundir niðri í Hreyfingu.

Tók svakalega brjóstæfingu í gær.
Fór létt með 55 kg í bekknum, en gekk samt ekki nógu vel með 60 kg sem er takmarkið mitt.
En þetta er allt að koma, og það er kreatíninu að þakka, það er algjört undraefni.
Þvílíkar bætingar á nokkrum mánuðum.

Ég hef ákveðið að taka mér drykkjupásu fram að Þrekmeistaramótinu í nóvember og einbeita mér að æfingunum.
Ekki það að ég hafi verið eitthvað öflug í drykkjunni undanfarið, en ég finn alltaf fyrir því á æfingu á mánudegi ef Bakkus hefur verið dýrkaður helgina áður, alveg sama í hve litlu magni það er.
Mér finnst nefnilega alltaf svekkjandi að geta ekki gefið mig 100% í hverja æfingu og verð bara pirruð, aðallega út í sjálfa mig.

Dagskráin framundan er afmæli í kvöld hjá Elínu og Elsu og svo brúðkaup Þórs og Guðlaugar á laugardaginn.

Ætli maður kíki ekki með öðru auganu á Sylvíukvikindið í kvöld í afmælinu, annars hef ég nákvæmlega engan áhuga á þessari keppni.

Til hamingju með afmælið, elsku Elín og Elsa!

Tuesday, May 16, 2006

Betur má ef duga skal

Ég biðst afsökunar á bloggleysi undanfarinnar viku en ég hef bara ekki stoppað síðan ég mætti á Klakann.
Rannsóknin gengur ágætlega en betur má ef duga skal og því bið ég alla sem vettlingi geta valdið að koma og taka þátt.

Annars er lítið að frétta svosem.
Helgin var mjög ljúf.
Á laugardagskvöld hittumst við stelpurnar í saumó ásamt Gunna og Snorra í grillveislu hjá mér í Hörgshlíð.
Við spiluðum Trivial Pursuit sem ég og Kata unnum með glæsibrag. Það var mikið hlegið og mjög gaman hjá okkur.
Við Snorri vöknuðum svo fáránlega snemma á sunnudagsmorgun, líkamsklukkan var greinilega ekki með á hreinu að það væri sunnudagur og því leyfilegt að sofa út. Svo við drifum okkur út í bakarí og keyptum bakkelsi, og áttum síðan kósý morgunverðarstund.

Næst þegar maður þjáist af þynnkubömmer getur maður alltaf hugsað til Eyþórs Arnalds, hans bömmer er alltaf verri en manns eigin.
The hangover from hell... já, þetta var dýrt fyllerí hjá honum!
Var það ekki annars hann sem söng "Ég, ég vil fá að lifa lengur..." sem var áróðurslag gegn umferðarslysum??

P.S Myndir úr afmæli Joshua Þórs og úr brúðkaupi Önnu og Gunna eru komnar inn á vefinn.

Wednesday, May 10, 2006

Back to the land of ice and snow

Helgin var þvílík snilld.
Laugardagskvöldið var tekið með trompi með Lovísu og Danny.
Við hittum þau á pöbb niður í bæ og svo fórum við út að borða á indverskan þar sem maturinn var sjúklega góður.
Án efa besti indverski matur sem ég hef prófað í langan tíma.
Eftir mat var kíkt í nokkra drykki á öldurhúsum Edinborgar.

Tvær bíóferðir voru farnar um helgina, á Transamerica og M:I III. Báðar góðar, hvor á sinn hátt.

Svo átti Lúlli litli laukur (a.k.a Snorri Steinn) ammæli í gær og er hann nú orðinn 31 árs gamall. Örvasa ellismellur!!

Ég kom til baka frá Edinborg í gær og fer í dag heim til Íslands, svo ég telst fullgildur meðlimur í þotuliðinu þessa dagana.

Ég hlakka til að sjá ykkur á Fróni.

P.S Myndir frá helginni koma inn fljótlega en fyrir óþolinmóða þá bendi ég á heimasíðuLovísu.

Thursday, May 04, 2006

Sumar og sol

Það er búið að vera þvílíkt veður í Guildford í dag, 25 stiga hiti og ekki skýhnoðri á himni.
Ég er búin að vera að kafna úr hita í allan dag, þetta er eiginlega 5 gráðum of heitt fyrir minn smekk.
Mér líður ekki vel þegar hitastig fer mikið yfir 20 gráðurnar, ég er algjör Íslendingur.
Enda eru 20 gráður skilgreindar sem hitabylgja á Íslandi.

Það var ekkert af fólki í ræktinni seinnipartinn, bara við þessi allra hörðustu.
Hinir aumingjarnir hafa frestað æfingu vegna veðurs.

Flug til Edinborgar í kvöld og gæðahelgi framundan í faðmi míns heittelskaða.

Sólarkveðjur frá Surrey sýslu,

Naglinn

Monday, May 01, 2006

We'll be rocking till the sun goes down....

Þrátt fyrir ljótt útlit á föstudag rættist bara úr þessari helgi.

Þar sem ég var búin að sitja og skrifa eins og hóra alla síðustu viku þá var ritgerðin bara orðin nokkuð settleg fyrir helgi.
Svo ég gat leyft mér að skella mér til London á laugardagskvöldið, en pabbi var einmitt í heimsókn hjá Ingibjörgu og Chiaka yfir helgina. Ég gisti hjá þeim fram á sunnudag.
Við byrjuðum daginn á að fara öll saman í ræktina, pabbi og Joshua fóru í laugina og við hin fullorðnu hristum skankana í gymminu.
Svo gerðumst við menningarleg og fórum á Natural History Museum, og síðan í Hyde Park að skoða Díönu minnismerkið.
Það er svona lækur sem rennur í hring, mjög stílhreint og flott.

Það var alveg nauðsynlegt að komast aðeins í burtu frá Guildford, enda er þetta ekki beint "the happening place".
Fyrir utan að það var enginn heima um helgina nema beturvitinn, og ég gat ekki hugsað mér návist hans alla helgina.

Ritgerðinni verður svo skilað á morgun, mér til mikillar ánægju. Hvort ég fækki fötum samt er óvíst, þar sem nekt á almannafæri er víst bönnuð með lögum.

Stefnan er svo tekin á fallegustu borg norðursins á fimmtudag þar sem minn heittelskaði bíður mín, ákaflega rómantískt allt saman.
Lovísa og Danny ætla að heimsækja okkur á laugardag, og verður það eflaust mikið fjör, enda aldrei leiðinlegt þegar luftgítardrottningin er annars vegar.

Lifi rokkið!!!