Website Counter
Hit Counters

Wednesday, July 26, 2006

Næstum buin....

Glæsileg helgi að baki.

Við Kata áttum frábæra tvo daga saman í London.
Tókum túristapakkann á laugardaginn með tilheyrandi bæjarferð og þrammi um stræti Lundúna.
Eftir góða tvo tíma í Topshop voru kreditkortin straujuð og skvísurnar orðnar vel dressaðar.

Gallipolli um kvöldið í tyrkneskt mezze sem klikkaði ekki frekar en fyrri daginn.
Með vel kýlda vömb fórum við á pöbbarölt og enduðum á King's head sem er alltaf með live tónlist, þar sem við kynntumst 'Tim who eats money' og bauð okkur í glas allt kvöldið.
Það kom svo í ljós að Tim var meira upp á karlhöndina, eins og okkur grunaði, svo við þurftum ekki að óttast að verða rukkaðar um veigarnar í blíðu.

Sunnudagurinn fór í að tjasla sér saman eftir ævintýri næturinnar og síðan var haldið upp í Camden og markaðurinn þræddur vel og vandlega.

Nú er ritgerðarkvikindið bara komin á kopinn og ég vonast til að geta skilað henni á fimmtudag eða föstudagsmorgun í síðasta lagi.
Svo er það bara gamli góði Klakinn á föstudagskvöldið og ég hlakka mikið til.
Alltaf gaman á Íslandi á sumrin.

Jæja, áfram með smjörið!!

Friday, July 21, 2006

TGI Friday

Jahérna hér, bara kominn föstudagur áður en maður veit af.

Það hefur vægast sagt verið heitt hér í Bretlandi undanfarna viku.
Á miðvikudag var beinlínis ólíft hérna, enda fór hitinn víst upp í 36 gráður hérna rétt hjá. Það er næstum líkamshitastig!
Ég er búin að gera nokkrar heiðarlegar tilraunir til að fara í sólbað, en ég endist yfirleitt ekki lengur en 5-6 mínútur yfir hádaginn. Það er ekki fyrr en um kl 18 sem hitastigið er orðið bærilegt til sóldýrkunar.
Annars hef ég ekki haft mikinn tíma fyrir slíkan hégóma, því ritgerðin tekur upp allan minn tíma enda nálgast lokaskiladagur eins og óð fluga.
Annars er það að frétta að Breska ríkisútvarpið (BBC) ætlar að senda systur mína til Beirút á morgun til að flytja fréttir af stríðsástandinu þar. Móður okkar líst nú ekkert á það fyrirkomulag og satt best að segja stendur mér nú ekki alveg á sama heldur. En það er ekki eins og að hún sé að fara að valsa um göturnar og djamma með Hizbollah-félögum.
Fréttamennirnir eru víst mjög verndaðir og klæðast skotheldum vestum og hjálmum og hún verður með tvo öryggisverði.
Ég gæfi nú ýmislegt fyrir að sjá systur mína í fullum herklæðnaði.

Helgin lítur vel út, því Kata vinkona er að koma í heimsókn til mín.
Við stöllur ætlum að eyða helginni í London og taka borgina með trompi.
Það stefnir í mikið stuð hjá okkur, með tilheyrandi búða-og markaðarápi, dinner og pöbbarölti.

Góða helgi öllsömul!

Monday, July 17, 2006

Jailhouse rock

Jæja jæja,

Mánudagur mættur í öllu sínu veldi með 32 stiga hita og gegndarlausri sól sem skiptir svosem ekki máli þegar maður er hlekkjaður við kjöltutölvuna í allan dag.

Enn ein frábær helgi að baki.
Minn heittelskaði kom í heimsókn um helgina og við áttum tvo yndislega og hreinlega fullkomna daga saman og brölluðum ýmislegt skemmtilegt:

- Gengum okkur upp að öxlum um Oxford stræti og nágrenni, versluðum, sáum Jimmy Floyd Hasselbaink í Selfridges

- Út að borða með Nick, bróður hans og ítalskri vinkonu þeirra

- Snorri höslaður af magadansmær á veitingastaðnum og ég dó úr hlátri

- Borough market, brunch í garðinum í sunshine lolly

- Upper street þrætt, bíó á Pirates of the Caribbean, grillaðir hamborgarar

- Camden

Hins vegar var helgin ekki svo skemmtileg fyrir sambýling minn, hann Graham og kærustuna hans.
Á einhvern óskiljanlegan hátt eignaðist hann kanadíska kærustu fyrir nokkrum mánuðum í ferðalagi sínu til New York.
Hún kom svo hingað um helgina og planið var að vera hér í heimsókn í 3 vikur og fara með nördinum til Krítar í nokkra daga.

Ég og Páll í kjallaranum höfum mikið verið að velta fyrir okkur hvað geti verið að stúlkunni, því það getur engin heilvita manneskja verið með manninum lengur en í hálftíma án þess að vera byrjuð að hnýta snöruna.
Við höfum komið með hinar ýmsu tilgátur, sem allar kolféllu þegar við hittum hana.
Hún er t.d ekki daufdumba, en við bjuggumst við Helen Keller eintaki, annað fannst okkur ekki koma til greina en að hún væri blind og heyrnarlaus, því maðurinn er svo leiðinlegur að maður óskar sér að skilningavitin nemi ekki það sem hann segir.
Hún er ekki í sértrúarsöfnuði, hún er ekki með þrjú augu, þrjár hendur né þrjár lappir en einhvers konar líkamlegir annmarkar fannst okkur mjög líklegir.
Hún er bara alveg svakalega indæl, mjög svo normal og virðist vera toppmanneskja, allavega við fyrstu kynni.

En tollverðirnir á Gatwick voru nú ekki alveg sammála um gæði stúlkunnar því við komuna til veldis hennar hátignar var henni hent í tukthúsið þar sem hún mátti dúsa í 4 klukkutíma um miðja nótt eftir að hafa setið í 2 tíma yfirheyrslu þar sem hún var spurð um tilgang ferðarinnar, vinnuna hennar, fortíð hennar og framtíð og smæstu smáatriði varðandi Graham, hana, þeirra samband, foreldra þeirra, systkini, ömmur og afa.

Ástæðan fyrir þessum ósköpum var sú að tollverðirnir sáu að hún hafði verið með atvinnuleyfi hér fyrir nokkrum árum og hafði svo verið neitað þegar hún sótti um það aftur núna nýlega, því fólk í sambandslöndunum fær víst bara einu sinni atvinnuleyfi. Hins vegar geta þeir ekki bannað henni að koma hingað til Bretlands í frí en tollurinn var svona skemmtilega tortrygginn að þeir ákváðu að þessi 23ja ára ljóshærða, bláeygða kanadíska stúlka væri kaldrifjaður glæpamaður sem hingað væri komin í þeim eina tilgangi að giftast nördinum til að fá vinnuleyfi og misnota þannig heilaga kerfið þeirra.
Henni var svo sleppt með semingi, en það er ekki víst að hún fái nokkuð að koma inn í landið aftur, svo Krítarferðin þeirra gæti verið fokin út í veður og vind.

Já það er vandlifað í þessum heimi.
Ég er samt að velta fyrir mér,fyrst hún fær þessa meðferð hér í Bretlandi, hvað ef þetta hefði gerst í United States of Paranoia?

Tuesday, July 11, 2006

Enn meiri hrakfarir...

Lesendur síðasta pistils, sem fjallaði nær eingöngu um veðrið, hafa væntanlega áttað sig á hversu súrt líf Naglans hefur verið undanfarið.
En síðustu helgi átti aldeilis að verða breyting þar á, en ég og Stephanie vinkona mín höfðum planað gæðahelgi í London, og ætluðum að vera í húsinu þeirra Ingibjargar og Chiaka en þau eru á Íslandi.
Okkur fannst við eiga þessa ferð svo sannarlega skilið eftir að hafa setið sveittar yfir ritgerðaskrifum.
Planið var að fara frá Guildford kl. 1700 á föstudag til að geta vaknað snemma á laugardeginum og tekið London með trompi.

En það varð aldeilis röskun á þessu plani okkar.

Á föstudagseftirmiðdag skelli ég mér í ræktina samkvæmt venju og þar sem ég er að undirbúa síðustu æfinguna þá missi ég 25kg lóðaplötu beint á stóru tána á vinstri fæti. Það fá engin orð lýst sársaukanum sem fylgdi í kjölfarið, enda gat ég ekki talað fyrsta kortérið fyrir sársauka. Það var hringt á sjúkrabíl og vessgú, Naglinn var keyrður út úr ræktinni í hjólastól og brunað upp á slysó. Þar var ég sett í röntgen og í ljós kom að táin var brotin. Henn var þá tjaslað við næstu tá, blóðið þurrkað og settar umbúðir. Þetta tók alveg heilar 10 mínútur en ég var búin að dúsa á biðstofunni í 4 klukkutíma takk fyrir takk. Ég var ekki komin heim fyrr en klukkan níu, gjörsamlega aðframkomin af hungri því ég hafði ég ekkert borðað síðan í hádeginu og það var ekkert ætt fyrir matvandan Naglann á spítalanum.
Gríðarlegur kvíði og angist bærði á sér yfir tábrotinu því Naglanum líkar ekki þegar truflun verður á æfingaplaninu. En það virðist sem það eina sem ég get ekki gert er að hlaupa og vera í háhæluðum skóm. Allt annað get ég gert sem er mikill léttir.

Ég ákvað að láta eitt lítið tábrot ekki stoppa mig í að fara til London enda búin að hlakka til alla vikuna að fara. Svo við stöllur drifum okkur á laugardagsmorguninn.

Þegar til London kom var nágranni Ingibjargar sem var með lykilinn að húsinu hvergi sjáanlegur né ínáanlegur í síma, enda hafði hún búist við okkur kvöldið áður.

Svo við fengum að geyma töskurnar hjá næsta nágranna og tókum stefnuna niður í bæ þar sem við áttum mjög skemmtilegan dag í Harrods, Piccadilly Circus, Soho, Covent Garden.
Ég var svolítið áhyggjufull að komast ekkert inn í húsið ef nágranninn hefði farið út úr bænum um helgina. . Stephanie var pollróleg yfir þessu öllu saman enda er hún frá Jamaica og algjörlega með 'Don't worry be happy' sýn á lífið. Hún var alltaf að segja mér að þetta myndi reddast allt saman. Og hún hafði rétt fyrir sér því lyklanágranninn hringdi loksins og lét okkur vita hvar lykillinn væri

Adam var samt ekki lengi í Paradís, því þegar við vorum á heimleið úr bænum reyndi ég að hringja í töskunágrannann, sem þá var horfin af yfirborði jarðar og svaraði engum símum, og var ekki heima þegar við komum til baka.
Við áttum pantað borð á ítölskum veitingastað kl. 21 og þegar við fórum úr húsi kl. 20.45 var hún ekki enn komin.
Allt málningadótið okkar og fínu fötin sem við höfðum ætlað að vera í um kvöldið, læst inni hjá nágrannanum.
Gaman gaman eða hitt þó heldur.
Sem betur fór höfðum við báðar farið hamförum í H&M um daginn svo við gátum verið svolítið pæjulegar á galeiðunni.
Reyndar lenti ég í því skammarlegasta ever þar inni (svosem í stíl við allt annað þennan daginn). Ég mátaði kjól sem var svona í þrengri kantinum, sem ég átti svo ekki séns að komast úr aftur sama hvað ég baksaðist. Það endaði með að ég þurfti að biðja afgreiðslustúlku um að hjálpa mér úr kjólnum.
Eins og ég sagði við hana: Hversu skammarlegt er þetta á skalanum 1 til 10?

Töskurnar fengum við svo eftir að við komum heim um miðnætti...og ekkert gagn í þeim fyrir utan tannburstann kannski.
En þrátt fyrir allar þessar hindranir, þá áttum við mjög skemmtilega helgi og skemmtum okkur konunglega yfir þessu öllu saman.
Maður getur alltaf hlegið að svona atvikum eftir á.

Wednesday, July 05, 2006

Hitabylgja

Djö&%$## hiti!!

Það er alltof heitt fyrir svona bleiknefja eins og mig.
Ég get ekki verið utandyra nema eldsnemma á morgnana og seinnipartinn eftir kl. 17.
Þess á milli er beinlínis hættulegt fyrir snjakahvítan Íslending að hætta sér út fyrir hússins dyr út af sólbruna og sólsting.

Síðustu nætur hafa verið viðbjóður.
Ég sef í einni spjör og ekki einu sinni með sæng en það er samt of heitt.
Á tímabili síðustu nótt langaði mig að rífa mig úr skinninu vegna hita og óþæginda.

Ég held að næsta fjárfesting Naglans verði vifta.

Svo er það rakinn, en hárið á mér þolir ekki raka og verður líkara hárinu á Monicu á Barbados með hverjum deginum.
Ég get gleymt því að reyna að slétta það því það krullast um leið og ég voga mér út.

Svo er ekkert smá erfitt að æfa í þessum hita.
Á morgnana þegar þeir opna ræktina þá hefur loftkælingin ekki verið á alla nóttina og það er eins og að labba inni í finnska saunu að koma þangað inn.
Ekki beint ákjósanlegar aðstæður fyrir brennsluæfingu, enda lekur svoleiðis af manni lýsið.
Þetta er eins og boxararnir gera, þeir fara út að hlaupa í vínylgalla svo þeir léttist fyrir keppni og Mike Tyson sem sippar í saunuklefa.
Maður léttist þá vonandi eitthvað en það er þá reyndar bara vökvatap, en ekki mör, því miður.
Seinnipartsæfingar eru mun skárri samt en þá er búið að kæla pleisið svo maður getur tekið á lóðunum án þess að falla í ómegin af hita.

Reyndar byrjaði að rigna í morgun loksins og ekki veitti af því grasið er alls staðar orðið gult og skrælnað.
Það á líka ekki að vera eins heitt næstu daga, sem betur fer.

Annars hefur ekki margt drifið á daga Naglans.
Ritgerðasmíð gengur vel en ég á að skila fyrsta uppkasti að ritgerðinni 13. júlí.
Svo nú er eins gott að halda vel á spöðunum!

Saturday, July 01, 2006

Fyndin saga

Þessi saga var í The Times í gær:

Tveir enskir fótboltaáhugamenn sem voru staddir á HM í Þýskalandi báðu lögregluna á staðnum að aðstoða sig því þeir gátu ekki með nokkru móti fundið bílinn sinn.
Þeir höfðu lagt honum í einhverja götu, en mundu ekki hvar hún var en sem betur fer voru þeir svo sniðugir að skrifa niður nafnið á götunni.
Þegar þeir sýndu lögreglunni miðann með götunafninu, fóru lögreglumennirnir að hlægja og sögðust því miður ekki geta aðstoðað þá við að finna bílinn.

Á miðanum stóð 'Einbahnstrasse' (einstefnugata).