Website Counter
Hit Counters

Monday, May 29, 2006

Helgin sem leið...

Róleg helgi að baki hjá Naglanum.

Kíkti á Pravda á föstudagskvöld til að fagna heimkomu Lovísu frá Leeds. Þessi staður hefur svosem aldrei verið minn tebolli en það skipti ekki máli þar sem maður var aðallega mættur til að hitta skvísurnar úr MR og viðhengin þeirra.
Ég fór samt bara snemma heim enda nóg að gera í rannsóknarmálum og þýðir ekkert að vera tuskulegur þessa dagana.
Svo er Naglinn líka í bindindi.

Laugardagurinn var tekinn snemma að venju. Byrjaði á að fara í brennslu og fór svo í badminton seinna um daginn með Línu. Það var þrælskemmtilegt, en þetta var jómfrúarspilið mitt. Ekki spurning að ég prófa badmintonið aftur.
Fékk líka harðsperður á mjög skrýtna staði, nýir vöðvar sem eru ekki oft notaðir þurftu allt í einu að spreyta sig, sérstaklega þessir í framhandleggnum.

Laugardagskvöldið var dapurt og fólst aðallega í sjónvarpsglápi en Greys Anatomy glápmaraþon var einkennandi þessa helgina ásamt Suður-Amerískri ræmu, Cronicas, sem var nokkuð góð.
Reyndi að þrauka yfir kosningasjónvarpinu en var enginn kandídat í það enda sofnuð vel fyrir miðnætti.

Sunnudagurinn var líka tekinn snemma og ég skellti mér á æfingu í World Class til tilbreytingar.
Ég er alveg við það að fá nett ógeð á Hreyfingu þar sem ég er þar nánast öllu stundum þessa dagana, bæði að æfa og með rannsóknina, svo það var nauðsynleg að breyta til.
Klassinn stóð auðvitað fyrir sínu með gæðatækjum og handklæði.

Ég var bara nokkuð sátt við úrslit kosninga enda komst minn maður, Dagur Bergþóruson Eggertsson, inn ásamt þremur kollegum sínum. Ég hefði þó viljað sjá fleiri atkvæði falla Samfylkingunni í vil en það verður víst ekki á allt kosið í þessu lífi.

Það verður samt fróðlegt að sjá hverjir fara í meirihlutasamstarf. Það er víst í deiglunni núna að Sjálfstæðisflokkurinn og Frjálslyndir séu að mynda meirihluta en þær raddir hafa samt verið uppi um að vinstri flokkarnir ætli kannski að mynda meirihluta.
Mér finnst að Sjálfstæðisflokkurinn eigi að fá að spreyta sig í borginni og mynda samstarf með Frjálslyndum.
Ætli við fáum ekki Vilhjálm sem borgarstjóra, útúrbótoxaðan (skiptir aldrei um svip) með rósrauðar varir og fínu hárkolluna sína.
En hann er svosem ekkert verri fyrir það, greyið, og verður eflaust fínn borgó.

2 Comments:

Blogger Dagny Ben said...

Ooooo...Ragnhildur. Bloggið þitt vekur alltaf upp í mér löngun til að fara að taka mig á, hreyfa mig af krafti og taka mataræðið í gegn... Því miður gleymist sú löngun áður en mér tekst að gera eitthvað í málunum. Þú ert alveg ótrúleg!
Hjá mér er nammi, ís eða einhvers konar óhollusta nauðsynlegur fylgifiskur sjónvarpsgláps. Alveg glatað.
Hvert er annars viðfangsefni rannsóknarinnar?

6:01 PM  
Blogger Naglinn said...

Viðfangsefnið eru jákvæð áhrif líkamsræktar á streitu.

Ég á nú alveg mína spretti í nammiáti yfir sjónvarpinu skal ég segja þér.
Maður er nú ekki alveg svo heilagur að öllu slíku sé sleppt. Þá væri nú ekki mjög gaman að lifa enda engin ástæða til heldur. Ef maður er duglegur í ræktinni hefur maður sko efni á að sukka svolítið af og til.
En ég á það samt til að taka smá maníuköst inn á milli þar sem ég sleppi nammideginum og er eins og skepna í ræktinni allar helgar.
Ég er svo skemmtilega öfgakennd, sveiflast milli tveggja póla í þessu öllu saman, en það er bara gaman...tilbreytingasnautt líf er ekki skemmtilegt.

Ég er alveg viss um að þú ert alveg dugleg að hreyfa þig kona góð, ég man nú eftir þér spriklandi í Sporthúsinu hér forðum daga.

2:37 PM  

Post a Comment

<< Home