Website Counter
Hit Counters

Wednesday, January 31, 2007

Svekkelsi

Ég kýs að tjá mig ekki um Ísland-Danmörk leikinn.
Það vekur upp of sárar minningar og ekki þess virði að velta sér upp úr slíku svekkelsi.

Í staðinn sendi ég hlýjar kveðjur til Strákanna okkar, sem eiga erfiðan leik fyrir höndum á morgun, enda niðurbrotnir menn og erfitt að þurfa að spila í slíku ástandi.

Þeir hafa staðið sig eins og hetjur allt mótið og eiga allt hrós skilið fyrir frábæra frammistöðu.

Það gengur bara betur næst!!

Tuesday, January 30, 2007

Við gerum okkar, gerum okkar, gerum okkar besta

Jæja hörkuleikur í kvöld á móti Dönum. Ég er dálítið hrædd við þennan leik samt, en við verðum að sýna þeim hvar Davíð keypti ölið og að við erum ekki lengur nein undirmálsþjóð sem hægt er að selja maðkað mjöl. Nú verða strákarnir að sýna Frakka-grimmdina aftur og minnast allra sem dóu úr hungri og vosbúð vegna einokunar Dana í gegnum árhundruð.

Eruð þið annars ekki að grínast með þennan janúar mánuð? Hann er endalaus!
Það er ennþá heill dagur eftir af þessum ljóta mánuði.
Mikið verð ég fegin þegar janúar, febrúar og mars verða búnir, þeir eru alltaf leiðinlegustu mánuðir ársins.
Allt svo dimmt og kalt og myglað eitthvað.
Svo get ég ekki beðið eftir útborgunardegi, en ég er orðin frekar þreytt á þessari sultaról sem er alltaf í innsta gati.

Come February....come!!

Thursday, January 25, 2007

Eat shit and die you Tunisians

Úff púff segi ég bara....enn einn snilldar handboltaleikurinn að baki.
Djö.... eru "strákarnir okkar" góðir. Þeir tóku þessa Túnis-djöfla í kennslustund, enda var allur móðurinn farinn úr þeim undir lok leiksins og þeir skutu bara út í bláinn í einhverju pati.
Gott á þá... þeim hefndist aldeilis fyrir Tyrkja-Guddu í gær....muuuhahahahaa.

Með þessu áframhaldi getur þetta ekki endað nema á einn veg.... Íslendingar verða heimsmeistarar í handbolta.
Þá yrði nú kátt á hjalla hjá landanum.

Ég skil ekki þennan auðkennislykil sem maður á að nota í heimabankann sinn.
Ég er margbúin að lesa upplýsingarnar sem fylgdu, en er greinilega of treggáfuð því ég botna hvorki upp né niður.
Getur einhver vinsamlegast útskýrt þessa græju fyrir mér.... á smábarnamáli takk.

Er með harðsperður (er víst skrifað svona) frá annarri vídd í löppunum.
Ég er nú frekar sjóuð í harðsperðum, en aldrei lent í svona viðbjóði.
Ég á virkilega bágt með klósettferðir og að labba niður stiga.
Spurning um að halda sig bara á efri hæðinni með þvaglegg næstu dagana.

Tuesday, January 23, 2007

Áfram Ísland!

Já ég skal segja ykkur það.... á dauða mínum átti ég von frekar en að Íslendingar myndu vinna Frakka.

Ég ætlaði ekki einu sinni að horfa á þennan leik, því ég bjóst við jafnvel harðari flengingu en við fengum í hörmungarleiknum gegn Úkraínu.

En þetta var eins og allt annað lið þegar þeir mættu til leiks í gær, þeir mættu inn á völlinn eins og tarfar í nautaati.... gjörsamlega dýrvitlausir.

Þvílík byrjun
Þvílík einbeitning
Þvílík markvarsla
Þvílík grimmd
Þvílíkt úthald

Hver einn og einasti íslenski kjaftur inni á vellinum sýndi yfirburða spilamennsku. Guðjón Valur var brjálaður allan leikinn og alveg hrikalega einbeittur með hnefann á lofti.
Það var vargöld og vígöld hjá Fúsa in der mitte, Óli lagði upp glæsileg mörk og Alexander, sem er ekki einu sinni fæddur á Íslandi, barðist eins og ljón allan leikinn.
M. a. s. Markús Máni sem hefur aldrei verið hátt skrifaður í mínum bókum raðaði inn mörkum.
En hetja leiksins að mínu mati var án efa Birkir Ívar, sem gjörsamlega lokaði markinu.

Þetta var án efa einn besti landsleikur sem ég hef séð Íslendinga spila.
Við þurfum meira af þessu, ef við eigum að komast upp úr 8-liða úrslitunum.

Koma svo strákar, nú er bara að valta yfir þessa Túnis-aumingja á morgun.
Hugsið bara um Tyrkjaránið, og aumingja Vestmannaeyingana forðum daga, til að viðhalda grimmdinni frá Frakklandsleiknum.

Áfram Ísland!!

Monday, January 22, 2007

Et og andet

Ljúf helgi í sumarbústaðnum að baki. Eftir þriggja vikna strangt aðhald í mat og drykk var loks komið að langþráðum nammidegi um helgina og ég fékk sem fyrr snert af Prader-Willi heilkenninu.

Djöfull voru Íslendingarnir slappir í leiknum á móti Úkraínu. Þeir hlupu um eins og hauslausar hænur í seinni hálfleik. Enginn leikmannanna var að gera neinar gloríur í þessum leik. Óli Stef gat nú alveg eins verið heima í heimspekipælingum, en á vellinum, markið gat allt eins verið tómt frekar en að hafa Róland eða Birki sem gátu ekki rassgat.
Guðjón Valur greyið bjargaði því sem hægt var en það dugði ekki til.
Ég ætla að stroka þennan leik út úr hausnum á mér.

Við kíktum aðeins á endursýningu á Söngvakeppni sjónvarpsins á sunnudag, og ég hef aldrei upplifað aðra eins hrinu af aumingjahrolli á stuttum tíma. Lögin voru öll vond, flytjendurnir hallærislegir og dansatriðin hvert öðru hörmulegra.
Lagið Áfram hafði samt vinninginn hvað ömurð varðar.
Ég meina hvað var málið með Pappírs-Pésa danssporið?

Að lokum vil ég mæla með myndinni "Foreldrar" sem er algjör snilld, og nánast jafn góð og forveri sinn "Börn".

Tuesday, January 16, 2007

Náungakærleikurinn

Ég var á leiðinni í Bónus í gær sem er ekki í frásögur færandi nema að þegar ég var að bakka út úr stæðinu fyrir utan hjá okkur, þá pikkfesti ég bílinn þannig að hann stóð hálfur út á Sogaveg og hálfur inni í stæðinu.
Sem sagt, afar óheppileg staðsetning.

Ég reyndi að rifja upp hvað stóð í ökunámsbókinni um hvað maður gerir í svona aðstæðum, en reynsla mín af svona löguðu er afar fátækleg og kvenheili minn afar takmarkaður í að finna leið út úr slíkum vandræðum.
Svo ég reyndi að bakka og snúa stýrinu, fara áfram og snúa í hina áttina, gefa í, moka frá dekkjunum með höndunum, setja í hlutlausan og reyna að ýta sjálf.

Það hefur ábyggilega verið efni í Falda myndavél að sjá mig, djöflast á húddinu á bílnum í rennisléttbotnuðum pæjustígvélum spólandi í snjónum að reyna að ýta bíl sem auðvitað haggaðist ekki.

Og þar sem ég hamaðist, þá þurftu vegfarendur Sogavegs að taka stóran krók fram hjá mér til að komast leiðar sinnar.
En datt þeim í hug að stoppa og bjóða fram aðstoð... neeeeiiii nei nei.

En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst.
Þar sem ég stóð þarna, alveg við það að gefast upp, sótbölvandi íslensku afskiptaleysi, og jarðsöng náungakærleikann, þá snöruðu tveir yndislegir piltar sér út úr bíl sínum og buðu fram krafta sína.
Þeir voru meira að segja klæddir til verksins, í snjóbuxum með skíðahanska.
Og skömmu síðar birtust tveir af rússnesku nágrönnum mínum til að aðstoða... "we help...yes".

Með sameiginlegu átaki þessara fjögurra sómadrengja losnaði bíllinn og ég sendi þeim öllum ástarkveðju og fingurkoss fyrir hjálpina.

Semsagt, náungakærleikurinn er ekki dauður.... bara vandfundinn.

Strákar mínir, ef þið lesið þetta... þið eruð æði og hjartans þakkir.
"Sposiba" my Russian friends.

Thursday, January 11, 2007

Ísland...dýrast í heimi

Hvað er að okkur Íslendingum??

Af hverju látum við alltaf valta yfir okkur á skítugum skónum án þess að segja múkk. Nú hafa þessir hálfvitar í ríkisstjórn lofað okkur sótsvörtum almúganum að matarverð muni lækka í mars.
Lækkunin verður samt ekki nema um 10-15%, og þar sem matarverð nú er rúmlega 60% hærra en í Evrópu þýðir það að eftir lækkun verður samt helmingi dýrara að versla í matinn hér.
Og enginn segir neitt frekar en vanalega.

Ég held að allir landsmenn ættu að fara á mótmælanámskeið í Frakklandi.
Þar kunna þeir að storka yfirvaldinu.

En við blánefjarnir í norðri mótmælum aldrei neinu.
Ekki hreyfum við legg né lið þó olíuverð lækki alls staðar annars staðar í heiminum en hér á Fróni, og enginn stendur á Austurvelli í nepjunni og lýsir frati yfir hinu fáránlega, og séríslenska fyrirbæri, verðtryggingu lána.

Nehei... við nennum ekki að standa í svona veseni og tökum bara frekar meiri yfirdrátt á himinháum vöxtum til að eiga fyrir salti í grautinn og bensíni á bílinn.

Jahh ég skal segja ykkur það, að hann Jón Sigurðsson snýr sér örugglega við í gröfinni núna.

Tuesday, January 09, 2007

Fíkn og Almodóvar

Ég er orðinn fíkill og dópið mitt er HEROES.

Þessir þættir fara alveg í ávanabindandi flokkinn með 24 og heróíni.
Ég er búin að horfa á fyrstu sex þættina núna, en ég hugsa ekki um annað allan daginn en hvenær ég fái næsta skammt af yfirnáttúrulegum hæfileikum þeirra Hiro, Peter, Niki, Isaac og félögum.
Fíknin er orðin slík að það hefur hvarflað að mér að hringja mig inn veika í vinnuna og vera heima og horfa.

Hins vegar leigðum við skötuhjúin nýjustu Almodóvar myndina Volver með Penelope Cruz, um helgina.
Hún hefur fengið toppdóma, og þar sem ég er mikill aðdáandi hans verka þá hlakkaði ÉG mikið til að sjá hana.
En ég held að væntingar mínar hafi þar af leiðandi verið orðnar of miklar, því ég varð fyrir þvílíkum vonbrigðum með þessa ræmu. Hún er með slappari myndum meistarans, og ég bara skil ekki allan þennan lofsöng sem hún hefur fengið.
Mér fannst hún eiginlega alveg hundleiðinleg, og bara algjört bull.
Ég meina, hvað var málið með drauginn??

Annars finnst mér Hablé con ella langbesta Almodóvar myndin, og Todo sobre mi madre fylgir henni fast á eftir.
Athugasemdir velkomnar!

Thursday, January 04, 2007

Jól og áramót

Jæja!!

Þá eru jólin afstaðin og komið nýtt ár.

Naglinn gerði sér víst aðeins of glaðan dag þessi jólin, og er nú á fullu að ná af sér þeirri gleði, sem lekur smám saman af vömbinni niður á hlaupabrettið í Hreyfingu.

En maður er nú ekki að svekkja sig of mikið á síðuspikinu, því jólin voru alveg hreint yndisleg hjá okkur turtildúfunum í Brussel.

Rauðvín var teygað í lítravís, góður matur snæddur í miklu óhófi og súkkulaði sporðrennt sem aldrei fyrr.
Enda var mikil gleðistund.... og þá er ekki átt við fæðingu smiðssonarins.


Gamlárskvöld var líka algjör snilld í kóngsins Köbenhavn, og sama uppi á teningnum þar og í Brussel, hvað varðar hyllingu Bakkusar og kýlingu vambar.

Ég segi nú bara, sem betur fer er þessi hátíð bara einu sinni á ári!!

Ég óska lesendum þessarar síðu alls hins besta á komandi ári.