Föstudagur enn og aftur...
Það er naumast að þetta kvef mitt ætlar að vera þrálátt. Ég er bara ekki að ná þessu úr mér, og er komin með verki í eyrun og hellu og er þreytt og slepjuleg. Djö...hvað ég er orðin pirruð á þessu, ég vil vera hraust enda er ég Nagli og þeir verða ekki veikir og hananú.
Ég er barasta orðin svolítið spennt fyrir þessum kosningum á morgun, ótrúlegt en satt. Ég sem hef aldrei haft neinn áhuga á pólitík, er núna farin að fylgjast með skoðanakönnunum, hlusta á frambjóðendur flokkana í morgunútvarpinu og er jafnvel að hugsa um að þrauka kosningavökuna annað kvöld.
Ojjj hvað ég er mikill nörd!!
Það er skrýtið hvað maður er fljótur að aðlagast breyttum aðstæðum.
Fyrst eftir að ég kom hingað heim á Klakann fór ég nánast að skæla í Bónus yfir verðlaginu og rétti afgreiðslukonunni kortið með miklum trega.
Svo fór ég að versla í gær og fannst það bara ekkert svo dýrt, samt var ég að borga nákvæmlega það sama og í fyrsta skiptið.
Það er kannski þess vegna sem ég fæ oft dræmar undirtektir frá samlöndum mínum þegar ég byrja að röfla um hvað allt sé fáránlega dýrt og erfitt að lifa hérna. Fólk er einfaldlega orðið vant þessu brjálæði og það finnst mér ekki gott ástand. Við eigum að spyrna við þessu rugli og ekki láta bjóða okkur að borga hátt í 200% meira fyrir matvörur en aðrir Evrópubúar.
Þegar samgöngur milli landa eru orðnar jafn auðveldar og í dag, þá trúi ég ekki að það sé hægt að réttlæta þetta himinháa verðlag með að við búum í rassgati og það sé svo erfitt að flytja allt til okkar.
Auðvitað hefur stærð markaðarins eitthvað að segja með þessum örfáu hræðum sem byggja skerið en fyrr má nú rota en dauðrota.
Vér mótmælum allir!!
0 Comments:
Post a Comment
<< Home