Eignunarkenningin
Það er magnað hvað hegðun manns hefur áhrif á skoðanir annarra á persónuleika manns.
Ég fór að pæla í þessu eftir nokkur fyndin atvik með sambýlingum mínum þar sem þau hafa ekki trúað ýmsu upp á mig sem ég gerði bara einhvern veginn ráð fyrir að þau vissu.
Í fyrsta lagi héldu þau að ég væri bindindismanneskja....já einmitt!!!
En þau hafa aldrei séð mig fara út að skemmta mér enda hef ég bara dottið í það tvisvar eftir að ég byrjaði í skólanum í haust og bæði skiptin var ég í burtu.
Ég hef hreinlega ekki áhuga á að fara á djammið í þessum rotna bæ, enda álíka stemmning eins og á skólaballi á Raufarhöfn. Gargandi smápíkur í pilsum í beltissídd, berleggjaðar í nepjunni. Já nei takk.
Þegar ég var nú búin að leiðrétta misskilninginn og ég ætti það nú til að bragða áfengan dropa af og til sagði ég þeim að þeirri athöfn fylgdu "félagslegar reykingar" þá veit ég ekki hvert þau ætluðu.... og neituðu að trúa að ég hefði smögað pakka á dag í gamla daga. "But you are so healthy???" "You are lying, I could never imagine you smoking?".
Svo héldu þau að ég hefði verið voða sporty týpa frá blautu barnsbeini. Svo ég sagði þeim frá frammistöðu minni í hlaupaprófinu í MR í gamla daga sem fólst í að hlaupa 2 hringi í kringum tjörnina. Það tók mig 15 mínútur (var síðust) en það hafði aldeilis afleiðingar í för með sér því það var ekki fyrr en seint um kvöldið sem ég jafnaði mig og hætti að vera fjólublá í framan eftir átökin.
Nú heimta sambýlingarnir sannanir fyrir að ég hafi verið keðjureykjandi spikfeit fyllibytta svo ég þarf að grafa upp gamlar partýmyndir af mér meðan ég er heima um páskana til að sanna mál mitt.
Þau halda líka að ég borði ALDREI neitt óhollt. Svo ég verð eiginlega að hafa nammidag einhvern tíma hér í Guildford og sýna þeim hvar Davíð keypti ölið í gegndarlausu áti á pizzum og súkkulaði. Því Naglinn kann sko að borða þegar sá gállinn er á honum!!
Mér finnst frekar athyglivert hvað það er auðvelt að byrja nýtt líf með hreinan skjöld einhvers staðar annars staðar þar sem fólk hefur ekki fyrirfram myndaðar skoðanir á þér. Ég meina ég hefði getað verið axarmorðingi, nýnasisti, rauðsokka, anarkisti í fyrra líferni en fyrir fólkinu hér er ég bara líkamsræktaróð, eggjakökuétandi heilsufrík sem á ekkert félagslíf.
Maður gerir oft ráð fyrir að fólk viti allt um mann, en auðvitað veit það bara það sem þú segir því og byggir svo upp álit sitt á þínum karakter þér eftir hvernig þú hagar þér.
P.S Fyrir áhugasama þá kallast þetta fyrirbæri "attribution theory" eða
eignunarkenningin í sálfræði.