Website Counter
Hit Counters

Tuesday, February 28, 2006

Eignunarkenningin

Það er magnað hvað hegðun manns hefur áhrif á skoðanir annarra á persónuleika manns.
Ég fór að pæla í þessu eftir nokkur fyndin atvik með sambýlingum mínum þar sem þau hafa ekki trúað ýmsu upp á mig sem ég gerði bara einhvern veginn ráð fyrir að þau vissu.

Í fyrsta lagi héldu þau að ég væri bindindismanneskja....já einmitt!!!
En þau hafa aldrei séð mig fara út að skemmta mér enda hef ég bara dottið í það tvisvar eftir að ég byrjaði í skólanum í haust og bæði skiptin var ég í burtu.

Ég hef hreinlega ekki áhuga á að fara á djammið í þessum rotna bæ, enda álíka stemmning eins og á skólaballi á Raufarhöfn. Gargandi smápíkur í pilsum í beltissídd, berleggjaðar í nepjunni. Já nei takk.

Þegar ég var nú búin að leiðrétta misskilninginn og ég ætti það nú til að bragða áfengan dropa af og til sagði ég þeim að þeirri athöfn fylgdu "félagslegar reykingar" þá veit ég ekki hvert þau ætluðu.... og neituðu að trúa að ég hefði smögað pakka á dag í gamla daga. "But you are so healthy???" "You are lying, I could never imagine you smoking?".

Svo héldu þau að ég hefði verið voða sporty týpa frá blautu barnsbeini. Svo ég sagði þeim frá frammistöðu minni í hlaupaprófinu í MR í gamla daga sem fólst í að hlaupa 2 hringi í kringum tjörnina. Það tók mig 15 mínútur (var síðust) en það hafði aldeilis afleiðingar í för með sér því það var ekki fyrr en seint um kvöldið sem ég jafnaði mig og hætti að vera fjólublá í framan eftir átökin.
Nú heimta sambýlingarnir sannanir fyrir að ég hafi verið keðjureykjandi spikfeit fyllibytta svo ég þarf að grafa upp gamlar partýmyndir af mér meðan ég er heima um páskana til að sanna mál mitt.

Þau halda líka að ég borði ALDREI neitt óhollt. Svo ég verð eiginlega að hafa nammidag einhvern tíma hér í Guildford og sýna þeim hvar Davíð keypti ölið í gegndarlausu áti á pizzum og súkkulaði. Því Naglinn kann sko að borða þegar sá gállinn er á honum!!

Mér finnst frekar athyglivert hvað það er auðvelt að byrja nýtt líf með hreinan skjöld einhvers staðar annars staðar þar sem fólk hefur ekki fyrirfram myndaðar skoðanir á þér. Ég meina ég hefði getað verið axarmorðingi, nýnasisti, rauðsokka, anarkisti í fyrra líferni en fyrir fólkinu hér er ég bara líkamsræktaróð, eggjakökuétandi heilsufrík sem á ekkert félagslíf.
Maður gerir oft ráð fyrir að fólk viti allt um mann, en auðvitað veit það bara það sem þú segir því og byggir svo upp álit sitt á þínum karakter þér eftir hvernig þú hagar þér.

P.S Fyrir áhugasama þá kallast þetta fyrirbæri "attribution theory" eða
eignunarkenningin í sálfræði.

Friday, February 24, 2006

Dancing queen

Þá er hann kominn föstudagurinn blessaður.

Ekki það að það skipti neinu máli því plönin hjá Naglanum fyrir þessa helgi eru ekki beysin.

Ég er að fara í próf á mánudaginn svo helgin fer í lestur og upprifjun.
Ætli ég leigi mér ekki bara spólu í kvöld eða kíki á fyrstu seríuna af Desperate Housewives sem ég er með í láni frá Stephanie.
Ég er nefnilega í Alias pásu, búin með fyrstu 2 seríurnar og fannst kominn tími til að hvíla Jennifer Garner í bili.
Eiginkonurnar aðþrengdu lofa góðu en ég er reyndar bara búin að horfa á fyrsta þáttinn og fannst hann algjör snilld.
Þessir þættir munu sko skemmta mér á síðkvöldum næsta mánuðinn.

Já ég veit ég er sorglegt eintak!!

En næsta helgi verður nú öllu skárri félagslega en þá er það Good ol' Scotland....þokkalega get ég ekki beðið!!!

Planið er að fara á Ceilidh, sem er ball með skoskum dönsum og er haldið í skólanum hans Snorra.
Við fórum á þetta ball í fyrra og annað svipað árið 2002. Í bæði skiptin vorum við svo léleg að fylgja dansinum að meira að segja hljómsveitin hafði orð á því hvað við værum vondir dansarar.
Þar sem við Snorri höfum ekkert verið að æfa okkur í skosku dönsunum heima í stofu þá verðum við eflaust aftur höfð að háði og spotti á ballinu næsta föstudag.

Það verður bara að hafa það þó við fáum hæðnisbréf sent til okkar næsta árið.

Wednesday, February 22, 2006

Smásaga úr ræktinni

Ég er í makindum mínum að gera magaæfingar á bolta haldandi á 10 kg lóðaplötu þegar einn kunningi kemur upp að mér og byrjar að spjalla.
Hann segir við mig: "I can see you add resistance when you train abs".
Jú jú svara ég, þýðir ekkert annað!
Þá segir félaginn: "If you need any extra help with adding resistance to your exercises you just let me know. For example if you want I could sit on your back when you do press ups."
Ég hváði við af því ég var ekki viss hvort ég hefði skilið manninn rétt... svo hann hóstar og verður voða vandræðalegur og endurtekur það sem hann sagði.
Ég hló bara og þakkaði honum fyrir en sagðist ekki vera að gera armbeygjur þennan daginn. Hann varð enn vandræðalegri og labbaði í burtu og ég sá hann ekki meir, hann hefur örugglega drifið sig út.

Enda mátti maðurinn skammast sín því fáránlegri uppástungu hef ég aldrei heyrt!
Í hvaða vídd lifir þessi maður eiginlega?
Hvernig dettur honum í hug að ég, 57 kg kvenmaður geti gert armbeygjur með 80 kg karlmann sitjandi á bakinu á mér??
Sumir hefðu kannski tekið þessu sem pikköpp línu en þar sem gæinn er rammsamkynhneigður Ameríkani þá býst ég við að honum hafi verið fúlasta alvara.

Í fyrsta lagi þá myndi ég nú varla ná andanum með hann ofan á mér, og myndi kannski komast niður í armbeygju en já glætan að ég gæti nokkurn tíma rétt úr höndunum til að komast í byrjunarstöðu aftur.
Fyrir utan það hve óviðeigandi það er fyrir aðra gesti stöðvarinnar að horfa á mig puða með hálfókunnugan mann ofan á mér.

Þó ég sé alltaf að þykjast vera Nagli í ræktinni þá er ég langt frá að hafa líkamlega burði eins og rússneskur kúluvarpari sem grætir mann og annan í sjómann.

Sumt fólk er náttúrulega bara ekki alveg í lagi!!

Friday, February 17, 2006

Ég var klukkuð....

Það er best að svara klukkinu hennar Svönu:

Fjögur störf sem ég hef unnið við um ævina:

-Regnboginn
-Skífan
-Gula línan
-Morgunblaðið

Fjórir staðir sem ég hef búið um ævina:

-Reykjavík
-Salamanca
-Edinborg
-Guildford

Fjórar bíómyndir sem ég gæti horft á aftur og aftur:

-Ocean's eleven
-Dirty Dancing
-True Romance
-Með allt á hreinu

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:

-24
-Bráðavaktin
-Alias
-CSI

Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg:

-yahoo.com
-surrey.ac.uk
-muscleandfitness.com
-mbl.is

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:

-USA
-Marokkó
-Kúba
-Thailand

Fernt matarkyns sem ég held upp á:

-Sjávarréttarisotto
-Paella
-Meze
-Mexíkórétturinn okkar Snorra

Fjórir staðir sem ég vildi heldur vera á núna:

-Í Edinborg
-Á frönsku rívierunni
-Uppi í sumarbústað
-Í útilegu í góðra vina hópi


Vessgú gott fólk!

Frjals framlog

Ég er með stóra holu í aftasta jaxli hægra megin sem hefur angrað mig undanfarna mánuði. En sökum sárrar fátæktar þá hef ég ekki efni á slíkum munaði sem tannlæknir er. Ég vildi að það væri til svona "do it yourself" tannviðgerðarsett. Svona eins og maður notar þegar springur á dekki á hjóli. Þá gæti maður bara sparslað upp í holuna sjálfur eða sett bót og bara allt í gúddí, engin tannpína lengur. Ég ætti kannski að finna upp svoleiðis og verða rík. Ég er alveg viss um að DIY tannviðgerðir myndu seljast eins og heitar lummur. Sérstaklega hér í Bretlandi en þeir eru með DIY á húsum og heimilum á heilanum. Það er vinsælasta sjónvarpsefnið þeirra.

Ég vildi að ég væri rík!! Það er svo margt sem mig vantar og langar í akkúrat núna sem krefst gríðarlegra útgjalda.

Til dæmis:

-Fullt af nýjum buxum-allar buxurnar mínar orðnar of stórar (mont mont)
-Nýjan iPod- batterýið endist ekki rassgat lengur
-Fara til augnlæknis-sjónin er að versna, þó ég sé með linsurnar þarf ég að píra til að sjá í fókus
-Fara til tannlæknis eins áður kom fram
-Lita á mér hárið-hef bara efni á klippingu
-Brjóstastækkun-ekki gaman að vera komin í AA skálar, það var nógu svekkjandi að vera bara í einu A-i
-Tannhvítun-gular tennur eins og mínar eru bara fyrir miðaldra kaffidrekkandi, reykjandi, andfúla kennara í klossum
-Bíl- það er eitthvað kommúnistalegt við almenningssamgöngur, svo eru þær aldrei á réttum tíma...argghhh
-Eigin íbúð-orðin frekar þreytt á að búa með fimm manneskjum sem þrífa ekki skítinn undan sjálfum sér


En þar sem ég er rétt að skrimta mánuðinn hangandi á síðasta pundinu í buddunni þá eru öll útgjöld sem ekki tengjast brýnustu lífsnauðsynjum út úr myndinni.

Svo ég er búin að senda út bauka til allra sem ég þekki, með mynd af mér framan á buxnalaus með tepokabrjóst tannlaus í strætó og sjónlaus.
Öll framlög, stór og smá eru vel þegin. Bauknum ásamt innihaldi má síðan skila í næsta banka eða sparisjóð eða beint til Hjálparstofnunar Námsmanna.

Með fyrirfram þökk!

Thursday, February 16, 2006

Whistlejacket

Smá plögg.
Tékkið endilega áWhistlejacket.
Vinur minn Jorge úr ræktinni er í þessari hljónst og mér finnst þeir bara nokkuð flottir.

Wednesday, February 15, 2006

Til hamingju með Vallann!!

Hér á 56 Church Road sveif rómantíkin yfir vötnum í gær Valentínusi til heiðurs.
Andy eldaði fyrir nýju kærustuna með rauðvíni og huggulegheitum og Karen eldaði fyrir Ben kærastann sinn. Bæði pörin skiptust á gjöfum, böngsum, rósum og álíka kjaftæði.
Ég fussa bara og sveia yfir þessum asnalega degi. Við Snorri höfum aldrei haldið upp á þennan dag sem var fundinn upp af kortagerðarfyrirtæki til að pikka upp söluna hjá þeim. Blómabúðir og veitingastaðir fá líka sinn skerf af þessari auglýsingabrellu. Ég læt sko ekki segja mér hvenær ég eigi að vera rómantísk með mínum manni og eyði sko ekki pening í konfektkassa og bangsa með hjarta á maganum (fyrir utan hversu fáránlegt það er að gefa fullorðnu fólki bangsa og hjartalaga blöðrur).
Við óskuðum hvort öðru bara til hamingju með Vallann í sms-i. Órómantískasta fólkið.
Svo ég sat bara ein með mína ommilettu í gærkvöldi, frekar frústreruð yfir allri þessari rómantík í kringum mig og minn maður 600 mílur í burtu. En ég réttlætti þessa einsemd fyrir mér með stórum yfirlýsingum um fáránleika Valentínusardags eins og mín er von og vísa.

Skilaði bækling í gær sem við áttum að gera í einu faginu. Ég var nokkuð stolt af mér að geta sett hann upp alveg sjálf í einhverju bæklingaforriti sem ég fann í Word. Það er um að gera að fikta bara nógu mikið í þessum tölvum og prófa sig áfram Bæklingurinn var um sykursýki Týpu 2, sem er áunnin sykursýki og kemur aðallega í offitusjúklingum. Svo fór ég í fyrirlestur um offitu í gær. Þar komu fram ansi sláandi tölur: aðeins 1% af þeim sem fara í meðferð við offitu ná að halda þyngdartapinu og í Bandaríkjunum eru 24-27% of feitir. Þannig að það er frekar vonlaust case að ætla að minnka offitufaraldurinn!!

Ég segi bara allir út að hlaupa!!!

Monday, February 13, 2006

Feitabolla

Helgin var bara snilld. Við skötuhjúin áttum alveg yndislegar stundir saman sem auðvitað liðu alltof hratt. Fórum fínt út að borða á tyrkneskan veitingastað sem við höfum lengi haft augastað á. Hann stóð alveg undir væntingum og við átum á okkur gat. Reyndar átum við á okkur gat alla helgina því við vorum bara í vellystingum upp á hvern einasta dag. Kíktum í bíó á Walk the Line og það má alveg mæla með þeirri ræmu. Bæði fóru á kostum í þessari mynd og eiga alveg skilið allt það hrós sem þau hafa fengið.

Nú er ég komin í brjálað átak því ég hef örugglega fitnað um 5 kg þessa helgi, öll útblásin með bumbuna út í loftið. Kemst ekki einu sinni í þröngu buxurnar mínar og þurfti að fara í feitabollu búningi í skólann til að fela viðbjóðinn.
Já manni hefnist fyrir græðgina!! En þegar nammidagarnir eru á 3 vikna fresti þá er svolítið erfitt að hemja sig :-/

Svo fékk ég nú ansi skemmtilegar fréttir eða hitt þó heldur. Ég stóð í þeirri meiningu að við ættum að skila ritgerðinni á föstudaginn 10. febrúar. Svo ég sat sveitt alla síðustu helgi í leiðindum dauðans að klára hana.
NEI NEI það á víst að skila henni 24. MARS!!! Samt stendur á námskeiðslýsingunni 10. febrúar en kennarinn hafði bara breytt því si sona og sent tölvupóst á alla í byrjun vetrar sem ég Nota Bene fékk ekki þar sem ég var ekki skráð í kúrsinn í upphafi annar.
Já gaman að þessu!!! Eða ekki...
Fínt samt að vera búin með hana, það léttir á álaginu í lok mars.

Always look on the bright side of life!

Wednesday, February 08, 2006

Edinburgh...here I come

Hæ hó jibbí jei og jibbí jei...það er kominn 8. febrúar.

Já góðir landsmenn til sjávar og sveita!
Með gleði í hjarta, nesti og nýja skó í farteskinu held ég á vit ævintýranna.
Hin forna borg í norðri sem margan merkan manninn hefur alið, konungborna jafnt sem óbreytta mun taka á móti mér opnum örmum. Ég mun drekka í mig menninguna meðan ég geng um hellulögð stræti og torg þar sem sárfátækur pöpullinn dró fram lífið og þræði slóðir dr. Jekyll í þröngum skúmaskotum og dimmum hliðargötum.

Já það er ekki hægt að segja annað en að framtíðin er björt...framtíðin er appelsínugul.

Monday, February 06, 2006

Sunnudagur dauðans

Jæja góðir hálsar,

Nú er ansi hreint leiðinleg helgi að líða undir lok sem betur fer.
Hápunktur helgarinnar var ENGINN og þá meina ég að fyrir utan hefðbundar ferðir í ræktina þá átti ég engar félagslegar athafnir.
En afraksturinn er auðvitað í takt við leiðindin því ritgerðarskömmin er nokkurn veginn komin í rétt horf, bara smá fínpússning eftir. Það er reyndar alveg ótrúlega tímafrekur andskoti.

Svo er bara "countdown" í miðvikudag þegar ég held burt úr þessum ljóta, leiðinlega bæ og til hinnar himnesku borgar í norðri. Þar mun minn heittelskaði taka á móti mér og planið er að eiga gæða helgi dauðans. Við höfum ekki hist í næstum þrjár vikur og það finnst okkur nú vera alltof langt. Já af er það sem áður var þegar við meikuðum alveg heilar 5 vikur án hvors annars, ojj það var ljóti tíminn samt. Allt annað líka að vera þó allavega í sama landi núna.

Ég hlakka mikið til að fara í skólann á morgun og það er mjög skrýtin tilfinning að hlakka til mánudags. Ég ætla að varðveita þessa minningu um aldur og ævi því ég efast um að eiga eftir að upplifa mánudagstilhlökkun aftur í lífinu.

Jæja, áfram með smjörið!

Adios mis amigos!!

Friday, February 03, 2006

Fredag

Jamm og jæja!
Það er kominn föstudagur og ekkert meira um það að segja.
Það stefnir í leiðinlegustu helgi EVER þar sem ritgerðaskrif verða allsráðandi.
Planið var að fara í bíó með Stephanie í kvöld að sjá Munich en þessir fávitar í kvikmyndahúsinu hér í Guildford eru hættir að sýna hana. Það er náttúrulega ekki alveg í lagi með liðið!! Það var verið að tilnefna hana til Óskars í vikunni og þeir skipta henni út fyrir einhverja skelfilega mynd með Jennifer Aniston og hinum útbrunna og vonda leikara Kevin Costner. Forgangsröðin er greinilega ekki alveg í lagi.

Annars gerði ég prufukeyrslu eða svokallaða "pilot study" í gær á MsC rannsókninni minni og það gekk bara sæmilega. Ég bæði hlakka til og kvíði fyrir að byrja á henni fyrir alvöru. Það er nettur kvíðahnútur í mallanum þar sem ég hef aldrei gert rannsókn áður en ég hlakka til að takast á við þetta verkefni samt sem áður. Svo verður fróðlegt að sjá hverjar niðurstöðurnar verða.

Góða helgi snótir og snáðar!

Wednesday, February 01, 2006

Gratur og gnistran tanna

Ég átti afar einkennilegar samræður við kunningja minn í ræktinni í gær.
Þannig var að við vorum að spjalla saman um æfingafélaga, hvað það væri hvetjandi o.s.frv. Hann var að spyrja mig um minn æfingafélaga en ég hef nokkrum sinnum æft með einum gæja sem er flugmaður. Þegar hann er ekki að fljúga, sem er ekki oft, og það hefur hentað okkur báðum þá höfum við tekið á því saman.
Fyrrnefndur kunningi var einmitt að segja mér að hann væri sjálfur kominn með æfingafélaga en hann hefur hingað til æft einn eins og ég. En hann sagði samt að það væri einn hængur á, og sá væri að félaginn gat bara mætt tvo daga í viku en kunningi minn er í geðveikinni með mér og æfir á hverjum degi. Svo ég spyr auðvitað hvernig á því standi að félaginn geti ekki mætt oftar. Kunninginn segir mér þá að kærasta æfingafélagans leyfi honum ekki að fara oftar og þau séu búin að semja um að hann fari bara tvo daga.
Ég varð auðvitað kjaftstopp og spurði gæjann hvort þetta væri djók eða hvað??? Nei, nei, aldeilis ekki. Kunninginn var grafalvarlegur og sagði að hann ætti sjálfur við sama vandamál að stríða en hann skilur kærustuna sína eftir grátandi heima á hverjum degi þegar hann fer í ræktina. Hann hefur margoft spurt hana hvort hún vilji ekki koma með honum en það vill hún ekki. Hún vill bara ekki að hann sé að fara og skilja hana eftir eina. Hann hlustar ekki á þessi rök hennar og fer samt en eftir situr kærastan með sárt ennið heima og skælir.
Ég þurfti nánast á áfallahjálp að halda eftir þessar lýsingar kunningjans.

En ef við pælum aðeins í þessu:

Í fyrsta lagi er ekki eins og maðurinn sé að fara á pöbbinn og drekka sig blindfullan með félögunum, eða í dóppartý að sprauta sig. Hann er að fara í RÆKTINA, hann er að hugsa um heilsuna sína og gera eitthvað uppbyggilegt.

Í öðru lagi spyr ég, á kærastan engar vinkonur og ekkert líf?? Þvílíkt dapurt eintak verð ég að segja. Ég meina, sitja þau bara tvö saman heima og um leið og hann vogar sér að fara út úr húsi þá hrynur hennar þrönga veröld?? Ég næ því ekki af hverju hún fer ekki með honum í gymmið eða notar tækifærið og hittir vinkonur sínar á meðan.

Í þriðja lagi þá get ég ekki séð að svona samband gangi upp þar sem ekki er stuðningur við það sem hinn aðilinn er að gera, sérstaklega þegar um er að ræða heilsusamlegar athafnir.

Ég er ansi hrædd um að Snorri minn myndi verða alvarlega þunglyndur MJÖG fljótlega ef hann grenjaði í hvert skipti sem ég fer í ræktina. Greyið, alltaf rauðþrútinn og grátbólginn.
Ég væri nú líka fljót að taka mal minn og hypja mig ef ég þyrfti að hlusta á eitthvað helvítis nöldur og kjaftæði yfir að ég væri að fara í RÆKTINA af öllum stöðum.

Já sumum stúlkum er bara ekki viðbjargandi. Þær eignast kærasta og hengja sig bara á hann, gera ekkert annað og hann verður bara miðpunktur tilverunnar.
Þvílíkt ósjálfstæði og sorgleg staða segi ég nú bara og skrifa.