Website Counter
Hit Counters

Friday, April 28, 2006

Með gleði i hjarta....

Naglinn er glaður í dag.

Ástæður gleðinnar eru eftirfarandi:

Það er föstudagur, sem er alltaf gaman þó að komandi helgi verði afar döpur félagslega séð.

Eitt stykki samantekt á literatúr (e. literature review) er að verða komin á koppinn.

Tvær flottar einkunnir fyrir ritgerð og fyrirlestur komu í hús í gær.

Bumbukvikindið er að hverfa, þó enn sé vænn skammtur af mör eftir. Það er meira hvað gjálífið er dýru verði keypt!

Góðir hlutir að gerast í ræktinni þessa vikuna, með aukningu í lóðaþyngdum fyrir nokkrar æfingar.

Það er komið vor og sólin skín. Það eitt og sér fær brúnina til að lyftast.

Að lokum óska ég lesendum góðrar helgar.

Thursday, April 27, 2006

Joshua a sjens




Joshua Þór komst á séns með einni skvísu um daginn.

Er hægt að vera sætari en þessi tvö, ég bara spyr???

Monday, April 24, 2006

Dancing naked in the streets

Frábær helgi að baki en við skötuhjúin héldum okkur í London hjá Ingibjörgu og Chiaka. Við áttum að passa Joshua á laugardagskvöldið því foreldrar hans ætluðu í fertugsafmæli. Við nánari athugun boðskortsins kom hins vegar í ljós að boðið byrjaði kl 13.00 en ekki kl. 20.00 eins og systir mín hafði áætlað.
Svo Joshua gat farið með í afmælið enda var það haldið snemma svo fólk gæti komið með afkvæmi sín.

En þar sem við Snorri vorum nú einu sinni mætt á svæðið til að passa fannst okkur nú alveg ómögulegt að passa ekki eitthvað smá. Svo við vöknuðum snemma á laugardagsmorguninn, skelltum okkur í rækt og sund, og tókum svo Joshua út að leika svo Ingibjörg gæti sofið lengur.

Restinni af deginum eyddum við svo á nýja uppáhaldsstaðnum okkar í London: Borough market, svo fórum við í ekta túristaferð að skoða Westminster Abbey, Big Ben og London Eye því að ótrúlegt en satt, þrátt fyrir fjölmargar Londonferðir hafði hvorugt okkar hafði komið á þessa staði.
Semsagt frábær dagur, enda geggjað veður, glampandi sól og 20 stiga hiti.

Ég hef endurskoðað planið um 1000 orð á dag...það var fullmikil bjartsýni og nú teljast 500 orð gott dagsverk.
Það eru hörmulegir tímar framundan en næsta vika mun eingöngu fara í smíði ritgerðar, fóðrun, svefn og rækt.

Mikið verð ég fegin þegar ég skila henni af mér...ég mun dansa nakin um göturnar af gleði.


Ragga strípalingur

Thursday, April 20, 2006

Bumbulius

Helvíti fór maður illa út úr þessari Íslandsdvöl.
Bumban á mér ber enn merki um sukk og svínarí og át og ólifnað helgarinnar.

Annars sit ég hér inni í kompunni minni og skrifa ritgerð eins og mökkur.
Er búin að gera áætlun sem felst í 1000 orðum á dag.
Alltaf gott að hafa plan...hvort það svo gangi eftir verður bara að koma í ljós.

Ég var illa montin í ræktinni í gær en það kom einn nýliði upp að mér og spurði af hverju ég lyfti svona þungum lóðum.
Hann sagðist skammast sín fyrir að lyfta minna en kona.

Já, Naglanum finnst ekki leiðinlegt að heyra svona komment!!!

Hrækt í lófa, sogið upp í nef og barið á bringu.

Wednesday, April 19, 2006

Aftur komin til Guildford

Jæja, þá er maður kominn aftur til Guildford eftir dásamlega dvöl á landinu Ísa með tilheyrandi veisluhöldum og annarri gleði.

Brúðkaup Önnu og Gunna var hið glæsilegasta í alla staði.

Athöfnin var mjög falleg og passlega löng. Presturinn var hress og kátur en mætti nú alveg dusta rykið af biblíunni og rifja upp Faðir vorið, þar sem það virðist hafa skolast aðeins til hjá honum.

Maturinn var geggjaður, sjávarréttahlaðborð af bestu gerð, og Naglinn tók vel til matar síns.
Ég fór meira að segja í kappát við Mikka kærasta hennar Kötu og vil ég meina að það hafi verið jafntefli í þeim slag þó það séu ekki allir sammála mér með þá túlkun á úrslitunum.
Þótt hann hafi farið fleiri ferðir, þá fyllti hann diskinn af tómum kaloríum eins og káli og ávöxtum sem teljast ekki með í svona keppni.
Svo var ég líka sneggri að klára af disknum, svo ég hafði hann allavega undir í hraða og snerpu.
Svo fór ég í afganga á mánudagskvöldið, svo í raun borðaði ég meira en Mikki af veislumatnum...bara yfir lengri tíma!
Svo ég vann kappátið eiginlega.

Eftir veislumatinn tók síðan við mikið fjör, með tónlistaratriði og allir drifu sig út á dansgólfið.
Vel var veitt af fljótandi veigum enda veislugestir orðnir miður prúðir undir lokin og farnir að teyga rósavínið af stút.

En í alla staði glæsileg veisla og óska ég að brúðhjónunum innilega til hamingju og megi gæfan fylgja þeim.

Takk fyrir mig, Anna og Gunni.

Það var rosa gott að koma heim til Íslands og hitta ættingja og vini þó stutt væri stoppið í þetta skiptið.
Maður gerði sér ekki grein fyrir hvað maður var farinn að sakna vinanna og fjölskyldunnar.

Við lentum samt í veseni við að komast aftur út.
Við áttum pantað flug á mánudagskvöld en flugvélin bilaði og við þurftum að bíða til þriðjudagsmorguns.
En það var hálfgert lán í óláni því pabbi var að fara út með sömu vél svo við gátum öll verið samferða.
En hins vegar kom það sér afar illa fyrir okkur bæði að missa svona heilan dag sem hefði getað farið í lærdóm.
Sérstaklega fyrir Snorra greyið sem á að flytja verkefni á fimmtudaginn.

Svo nú tekur alvara lífsins við með ritgerðarskrifum og rannsóknarvinnu og eins gott að láta hendur standa fram úr ermum.

Tuesday, April 11, 2006

Kaupæði

Á hverju vori hellist yfir mig verslunarmanía.

Í vetur hef ég hangið með nefið á búðargluggunum eins og litla stúlkan með eldspýturnar og ekki vogað mér inn ef ske kynni að ég myndi sjá eitthvað sem mig langaði í.

En þegar vortískan byrjar að prýða búðargluggana þá er eins og allar hömlur fjúki út í veður og vind og ég VERÐ bara að eignast nýjustu tískufötin fyrir sumarið.

Þrátt fyrir að eiga ekki bót fyrir auma rassinn á mér, þá er það sama að gerast þetta vorið.

Á sunnudaginn fórum við Karen í bæinn og ég kom heim 100 pundum fátækari en hlaðin pokum fullum af alls kyns óþarfa sem ég kæmist eflaust af án þess að eiga.

Nú á ég semsagt fullt af nýjum fötum, töskum og glingri en sultarólin verður í staðinn óþægilega þröng það sem eftir lifir mánaðar.

Veit einhver hvað maður fær mikið fyrir að selja nýrað í sér??

Saturday, April 08, 2006

Husfelagar, rannsokn og Islandsfor

Það hefur verið mjög hljóðlátt á 56 Church Road undanfarna daga þar sem flestir íbúar hússins hafa verið í burtu.
Síðustu vikuna vorum við bara tvö í kotinu, ég og Njörður eins og ég kalla Graham.
Ég er nú svona nett búin að taka hann í sátt, greyið, er ekki alveg eins leiðinleg við hann og ég var fyrst.
Þetta er vænsta skinn, hann er voða viljugur að lána manni hitt og þetta og er eini karlmaðurinn í húsinu sem lyftir spönn frá rassi hvað þrifin varðar.

En hann er samt alveg drepleiðinlegur, og það sem er mest óþolandi við hann er að ef þú ert með hausverk þá er hann með heilaæxli, það er alveg sama hvaða kvilla eða sjúkdóm maður nefnir, hann hefur fengið hann. Sama gildir um nánast allt annað, hann þykist hafa prófað allt.
Been there, done that and bought the T-shirt!

Hann veðraðist allur upp um daginn þegar ég spurði hann ráða varðandi hnéð, en hann er að sjálfsögðu með vökva í hnéskelinni og hefur ekkert getað hlaupið í 6 mánuði (hann er maraþonhlaupari).
Núna heldur hann að við séum voða miklir pallar, og bankar hjá mér reglulega, bara til að spjalla, aðallega um hnéð á sér.
Ó vei mig auma!!

Í morgun fór ég með Karen upp í skóla til að gera síðustu prufukeyrsluna á rannsókninni og ég held að ég sé bara tilbúin í slaginn frá og með mánudegi. Það gæti samt verið erfitt að fá fólk til að taka þátt akkúrat núna þar sem páskafríið er byrjað.

Ég hef samt ekki stórar áhyggjur af að fá 40 manns í rannsóknina þar sem ég ætla að hafa happdrætti fyrir þá sem taka þátt og vinningurinn er ekki af lakari endanum...ó nei.
Þar sem líkamsrækt er ekki hátt skrifuð hjá Bretanum þá datt mér í hug að það yrði kannski frekar erfitt að fá fólk til að koma og hjóla, þó það sé ekki nema í 10 mínútur.
Svo Snorri kom með þá snilldarhugdettu að hafa ferð til Íslands í vinning. Það hlýtur að rífa liðið upp af rassinum og upp á fákinn fyrir rannsóknina mína.

Nú eru bara nokkrir dagar í Íslandsför og ég er kominn með nettan fiðring í magann af tilhlökkun.
Það verður ábyggilega svolítið skrýtið að koma heim eftir rúma 6 mánuði í burtu en ég hef aldrei verið í burtu frá Íslandi svona lengi í einu.
Ég býst nú samt ekki við dramatískum breytingum, enda svosem ekki margt sem gerist á hálfu ári.

Yfir og út!

Thursday, April 06, 2006

Ballerina

Ég sá mann í tátiljum í ræktinni í dag!!

Síðast þegar ég sá karlmann skarta slíkum fótabúnaði var fyrir tæpum 20 árum í leikfimistíma í Ísaksskóla.

Ég nánast skellti upp úr þegar ég tók eftir honum og er búin að vera í hláturskasti með sjálfri mér síðan við tilhugsunina um manninn tiplandi um salinn, klæddur eins og 12 ára ballerína til fótanna.

Ég verð samt að segja að ég óttaðist um litlu tásurnar á manninum innan um öll þungu lóðin sem hefðu getað kramið þær.

Hann ætti kannski frekar að kaupa sér kort í Jazzballet skóla Báru.

Wednesday, April 05, 2006

Vorið er komið og grundirnar groa...

Loksins er vorið að koma eftir langa bið.
Það er farið að hlýna verulega og það er bjart alveg til kl. 20 á kvöldin. Reyndar eru dreggjar vetrarins ennþá ekki alveg farnar því það var frost í morgun en það er allavega búið að vera sól síðustu vikuna sem er ágætis tilbreyting frá skítaveðrinu sem var hérna allan mars.

Nú er allri kennslu lokið svo ég fer ekki meira í skólann til að fara í tíma. Nú er ég bara að vinna í ritgerðinni og að undirbúa rannsóknina sem ég þarf að fara að byrja á skv. kennaranum mínum. Hann er orðinn eitthvað óþolinmóður, svo ég verð að drífa í að koma henni á laggirnar áður en ég fer heim á Klakann um páskana.

Mikið leiðist mér heimskt starfsfólk.
Til dæmis í ræktinni vinna nokkrir vanvitar sem eru bara sóun á plássi, ekki deginum eldri en 12 ára og hafa ekki hundsvit á neinu sem heitir líkamsrækt.
Um daginn bað ég eitt svona kvikindi að 'spotta' mig í bekknum og það munaði engu að dagar mínir væru taldir þann daginn. Þar sem ég rembdist undir stönginni að reyna að koma henni upp, þurfti ég að garga á lofthænuna að nú væri ágætis tími til að grípa inn í áður en ég missti stöngina á bringuna.
Hún stóð bara yfir mér, horfði út í loftið, tuggði jórturleðrið af krafti og áttaði sig engan veginn á þessu nýja hlutverki sínu.

Svo í gær hélt ég að ég væri búin að týna ströppunum mínum, fann þá hvergi en var viss um að ég hefði tekið þá upp úr pokanum þegar ég byrjaði að æfa.
Svo ég fer í afgreiðsluna og spyr fermingarfræðslu drenginn sem var að vinna hvort einhver hefði komið með strappa sem hefðu fundist á gólfinu. Hann horfði á mig með tómu og sljóu augnaráði og í einhverju paniki leit undir borðið og sagðist ekki hafa séð neitt. Svo ég spurði hvort hann ætti auka strappa til að lána mér. Hvað haldiði að félaginn hafi gert??? Hann fór í sjúkrakassann og náði í sárabindi!!! Hann vissi semsagt ekki hvað strappar voru og þykist svo vinna í líkamsræktarstöð.

Svona hlutir geta pirrað mig endalaust mikið. Ég veit að ég er með mjög lágan þröskuld!!

Anger management námskeið...anyone??

Monday, April 03, 2006

Nyjasta nytt

Ég biðst afsökunar á bloggleysi liðinnar viku. Það er búin að vera þvílík geðveiki í gangi á lokasprettinum í verkefnaskilum fyrir annarlok. EN sem betur fer er öll kennsla og tilheyrandi ritgerðaskrif og verkefnavinna búið núna og ég get farið að einbeita mér eingöngu að MsC verkefninu.

Helgin var stórkostleg. Snorri var hjá mér alla síðustu viku og við enduðum dvölina hans á yndislegri helgi í London. Ingibjörg og Chiaka og Joshua Þór fóru til Frakklands í viku, þannig að við vorum með húsið nánast út af fyrir okkur. Reyndar er vinkona Ingibjargar búin að búa hjá þeim í 2 mánuði en það fór ekkert fyrir henni svo við vorum eiginlega bara ein.
Við fórum á Borough market á laugardaginn, sem var algjör snilld enda finnst mér alltaf mjög gaman á matarmörkuðuðum.
Svo kíktum við tvisvar í bíó um helgina á Romance & Cigarettes og Inside Man. Báðar MJÖG góðar en MJÖG ólíkar myndir.

En allt gaman tekur enda og nú er ég aftur orðin grasekkja í Guildford...snökt snökt.