Husfelagar, rannsokn og Islandsfor
Það hefur verið mjög hljóðlátt á 56 Church Road undanfarna daga þar sem flestir íbúar hússins hafa verið í burtu.
Síðustu vikuna vorum við bara tvö í kotinu, ég og Njörður eins og ég kalla Graham.
Ég er nú svona nett búin að taka hann í sátt, greyið, er ekki alveg eins leiðinleg við hann og ég var fyrst.
Þetta er vænsta skinn, hann er voða viljugur að lána manni hitt og þetta og er eini karlmaðurinn í húsinu sem lyftir spönn frá rassi hvað þrifin varðar.
En hann er samt alveg drepleiðinlegur, og það sem er mest óþolandi við hann er að ef þú ert með hausverk þá er hann með heilaæxli, það er alveg sama hvaða kvilla eða sjúkdóm maður nefnir, hann hefur fengið hann. Sama gildir um nánast allt annað, hann þykist hafa prófað allt.
Been there, done that and bought the T-shirt!
Hann veðraðist allur upp um daginn þegar ég spurði hann ráða varðandi hnéð, en hann er að sjálfsögðu með vökva í hnéskelinni og hefur ekkert getað hlaupið í 6 mánuði (hann er maraþonhlaupari).
Núna heldur hann að við séum voða miklir pallar, og bankar hjá mér reglulega, bara til að spjalla, aðallega um hnéð á sér.
Ó vei mig auma!!
Í morgun fór ég með Karen upp í skóla til að gera síðustu prufukeyrsluna á rannsókninni og ég held að ég sé bara tilbúin í slaginn frá og með mánudegi. Það gæti samt verið erfitt að fá fólk til að taka þátt akkúrat núna þar sem páskafríið er byrjað.
Ég hef samt ekki stórar áhyggjur af að fá 40 manns í rannsóknina þar sem ég ætla að hafa happdrætti fyrir þá sem taka þátt og vinningurinn er ekki af lakari endanum...ó nei.
Þar sem líkamsrækt er ekki hátt skrifuð hjá Bretanum þá datt mér í hug að það yrði kannski frekar erfitt að fá fólk til að koma og hjóla, þó það sé ekki nema í 10 mínútur.
Svo Snorri kom með þá snilldarhugdettu að hafa ferð til Íslands í vinning. Það hlýtur að rífa liðið upp af rassinum og upp á fákinn fyrir rannsóknina mína.
Nú eru bara nokkrir dagar í Íslandsför og ég er kominn með nettan fiðring í magann af tilhlökkun.
Það verður ábyggilega svolítið skrýtið að koma heim eftir rúma 6 mánuði í burtu en ég hef aldrei verið í burtu frá Íslandi svona lengi í einu.
Ég býst nú samt ekki við dramatískum breytingum, enda svosem ekki margt sem gerist á hálfu ári.
Yfir og út!
2 Comments:
Já þetta er búið að vera svolítið langur tími hjá þér í þetta skiptið. Ég hlakka svooo til að sjá þig.
Knús og kossar
Anna María
Sömuleiðis elskan mín, hlakka mikið til að hitta þig.
Ég get ekki beðið eftir að sjá þig glæsilega labba inn kirkjugólfið.
Ég þarf örugglega að kaupa mér vasaklút fyrir brúðkaupið!!
Post a Comment
<< Home