Website Counter
Hit Counters

Friday, June 30, 2006

Kveðjustund

Átti yndislega tvo daga með mínum heittelskaða í London, en hann fór heim til Íslands á fimmtudaginn.
Nú er hann orðinn svo fullorðinn, orðinn arkitekt og byrjar að vinna sem slíkur á mánudaginn.

Við skötuhjúin fórum út að borða á þriðjudagskvöldið og svo í leikhús að sjá The Producers, sem var algjör snilld. Það er frekar langt, eða um 3 tímar, en manni leiddist ekki eina einustu mínútu. Þetta var án efa skemmtilegasta leikrit sem ég hef séð.
Svo strolluðum við niður á Piccadilly og fengum okkur ís. Það var hellings líf í bænum, samt bara þriðjudagskvöld.
Það er auðvitað high-season núna, enda allt morandi í túristum.
Á miðvikudaginn fengum við okkur 'brunch' úti í garði...frekar næs að geta setið svona úti og borðað.
Svo tókum við smá túristapakka í London, kíktum á Victoria og Albert safnið á Che Guevara sýningu, kíktum í Harrods, Hyde Park, Green Park og enduðum frábæran dag á að borða með Ingibjörgu, Chiaka og Joshua úti í garði.

Ég er að kafna úr spenningi yfir leiknum á morgun, England-Portúgal.
Ég er ekki alltof bjartsýn fyrir hönd minna manna, en samt veit maður aldrei, það getur allt gerst.
Eins hlakka ég mikið til að sjá Frakkland-Brasilíu, en þar held ég með Frökkunum. Þetta verður hörkuleikur með menn eins og Zidane snilling, Barthez (sem mér finnst alveg eins og Hitler), Henry og Viera á móti Carlos, Ronaldinho og Ronaldo (feitabollu).
Usss...hvað það verður spennandi leikur.

Annars stefnir í leiðindahelgi hjá Naglanum, skriftir, rækt, fótbolti, skriftir rækt, fótbolti.
Kannski að maður reyni samt að fá smá tan inn á milli skrifta um helgina, enda glampandi sól og 30 stiga hiti.

Góða helgi!!

Monday, June 26, 2006

Hrakfarir

Jamm jamm!

Rólegheitahelgi að baki.
Skrapp til London frá laugardegi til sunnudags. Ég bara varð að komast frá Guildford.
Ég á mjög erfitt með að vera hér um helgar. Bæði finnast mér helgarnar oft einmanalegri þegar ég er Snorralaus og svo er ég orðin svo vön að hafa húsið út af fyrir mig allan daginn yfir vikuna að það fer í taugarnar á mér að hafa sambýlingana heima allan daginn um helgar.

Við systur tókum því bara rólega um helgina. Ragga móða var látin passa Joshua Þór á meðan móðirin fór í leikfimi, og það gekk bara fínt. Joshua Þór er núna á fullu í sjálfstæðisbaráttu, og vill gera allt sjálfur og enginn má hjálpa honum með eitt eða neitt. Til dæmis á hann þríhjól sem er með stöng aftan í fyrir fullorðna til að stýra.
En það er ekki séns að maður megi stýra, hann ætlar sko að hjóla sjálfur, takk fyrir takk!
Ég kalla hann núna Jón Sigurðsson, vér mótmælum allir!!
Þessi barátta hans gerir það að verkum að örstuttur hjólatúr um hverfið tekur hátt í 2 klukkutíma, þar sem hjólahraði 2ja ára drengs er á við meðalsnigil.
Svo þarf reglulega að fara af hjólinu og kanna aðstæður og vesenast svolítið.
Við skulum bara segja að 'Lagga', eins og hann kallar mig, þurfi að hækka þolinmæðisþröskuld sinn allverulega þegar ég passa hann frænda minn.

Á sunnudag fór ég í afmælisboð hjá Helgu frænku en Stefán var 1 árs. Stefán er kötturinn þeirra Kristjáns og Doreen, dökkbrúnn síamsköttur og alveg hrikalega falleg skepna.
Það var mjög gaman að hitta familíuna enda langt síðan síðast.
Fótbolti í Englandi er sko ekki bara leikur, þetta eru trúarbrögð!
Ég lagði af stað frá húsinu hennar Ingibjargar til að fara til Helgu akkúrat þegar England-Ecuador var að byrja, svo ég myndi ná að horfa á seinni hálfleik hjá Helgu.
Þannig að ég var akkúrat að ferðast milli staða á meðan leikurinn var og það var ekkert smá skrýtin upplifun.
Göturnar og lestarnar voru tómar, og það í sjálfri London.
En gott hjá mínum mönnuma að vinna, og hjá geldingsBeckhamskvikindinu að skora. Það sást meira að segja móta fyrir brosviprum á fýlupúkakonunni hans upp í stúku. Hún er þá með tennur.

Ég átti ansi skemmtilega lífsreynslu, eða hitt þó heldur, á Waterloo stöðinni, þar sem ég tek lestina frá London til Guildford.
Um helgar gengur sú lest á hálftíma fresti, og fer á heila og hálfa tímanum.
Að sjálfsögðu kom ég á Waterloo kl 19.02, svo ég mátti bíða í hálftíma eftir næstu lest.
Svo ég sest og fæ mér að borða, og þar sem ég er að tyggja matinn næ að bíta svona heiftarlega fast í vörina á mér að það fór næstum því stykki úr og alveg fossblæddi.
Ég hef oft lent í að bíta í vörina eða tunguna en aldrei svona rosalega, sársaukinn ætlaði bara aldrei að hætta.
Síðan ákvað ég að drepa tímann í bókabúðinni við að skoða bækur og blöð. Nema að ég gleymdi mér algjörlega og þegar ég loks leit á klukkuna var hún 19.25. Ég rauk af stað til að kaupa miða og var þá ekki einhver stropaður einstaklingur á undan mér í miðavélina sem kunni ekkert á hana, og tók óratíma í þessa sáraeinföldu aðgerð.
Loksins þegar ég var komin með miðann í hendurnar og blóðþrýstinginn upp fyrir eðlileg mörk af pirringi út í vanhæfa einstaklinginn á undan mér, þá spretti ég úr spori að ná lestinni og flaug að sjálfsögðu á hausinn út á miðju gólfi fyrir framan c.a 100 manns.
Ég stóð upp blóðrauð í framan af skömm, og henti mér upp í sneisafulla lestina og reyndi að finna sæti. Í öllu óðagotinu rak ég hægri mjöðmina af alefli í eitt sætið. Þegar ég svo loks settist sá ég að það blæddi úr hendinni á mér og það var brunasár á hnénu eftir að hafa runnið á gólfinu.
Þegar heim var komið leit ég í spegil og við mér blasti óhugnaður, því vörin var stokkbólgin eftir bitið.
Semsagt, ég kom heim úr þessari Londonferð lítandi út eins og fótboltabulla eftir tapleik.

Þetta er svosem ekki í fyrsta skipti sem það gerist, minnug óhappsins á Leicester Square fyrir ekki svo löngu síðan.
Það er nú ekki oft sem ég flýg á hausinn en það virðist eingöngu gerast á MJÖG mannmörgum stöðum, svo ég skammist mín alveg örugglega nógu mikið.

Friday, June 23, 2006

Football mania

Svei mér þá.

Maður er bara algjörlega dottinn inn í HM. Sem er kannski ekki skrýtið miðað við alla fótbolta-HM-Wayne Rooney-Áfram England geðveikina sem er allt í kring.
Auðvitað vona ég að Englendingar komist áfram en ég held samt ekkert endilega bara með þeim.

Ég hef alltaf verið frekar hrifin af Hollendingum, og finnst Van der Saar algjör snillingur í marki.
Þjóðverjar eru líka í uppáhaldi hjá mér, enda með sterkar taugar til Þýskalands eftir að hafa eytt sumrunum þar í æsku. Ballack er náttúrulega algjör snilli, og ekki spillir útlitið fyrir. Loksins kemur Þýskari sem er ekki með hormottu og mullett.
Spánverjarnir eiga auðvitað stað í hjarta mínu líka.
Eins eru Brassarnir alltaf góðir, en eftir að hafa búið með leiðinlegum brasilískum fávitum í gegnum tíðina er eiginlega búið að eyðileggja fyrir mér að geta haldið með Brasilíu.
Ég er líka ánægð með Ghana að hafa komist áfram og sent Bandaríkjamenn heim. Þeir voru hvort eð er með leiðinlegt lið. Ég vorkenni alltaf Afríkuþjóðum, því þær eiga oft svo bágt. Þess vegna er svo gaman þegar gengur vel hjá þeim í einhverju.
Zinedine Zidan er auðvitað manna getnaðarlegastur og Frakkarnir sterkir á vellinum

Ég held ekki með Ástralíu, Sviss og Argentínu (Carlos Tevez gæti verið týndi hlekkurinn milli manns og apa) og vona að þessar þjóðir detti út fljótlega.

Góðar stundir!

Tuesday, June 20, 2006

Ferðasaga Naglans

Jæja góðir hálsar.

Þá er maður aldeilis endurnærður eftir frábæra helgi.
Ég og Snorri skelltum okkur nefnilega í heimsókn til pabba gamla í Brussel um helgina en hann var að passa Joshua af því Ingibjörg og Chiaka fóru í helgarferð til Istanbúl.
Pabbi kom á bílnum yfir og sótti mig og Joshua á fimmtudaginn, og við fórum öll saman yfir til Frakklands í gegnum Ermarsundsgöngin og þaðan keyrðum við til Brussel.
Ég var svo gáfuð eða þannig að gleyma passanum mínum heima í Guildford. Ég pældi ekki einu sinni í því að maður þyrfti að hafa passa í Eurotunnel-ið, einhvern veginn er það alveg fast í manni að þurfa bara passa þegar maður flýgur.
En þetta slapp, sem betur fer, því öryggiskallarnir báðu ekki einu sinni um að fá að sjá þá.
Bretarnir eru víst miklu strangari en Frakkarnir varðandi fólk sem kemur inn í landið, svo sendiráðið reddaði mér svo bráðabirgðapassa til að sýna á heimleiðinni.
Snorri flaug svo frá Glasgow til Brussel á föstudaginn.

Núna erum við bæði með brjálaðan heimkomubömmer og hefðum auðvitað viljað vera miklu lengur, það er alltaf þannig.
Mér finnst Brussel alltaf skemmtilegri eftir því sem ég kem oftar þangað.
Þessi borg hefur nefnilega upp á alveg ótrúlega margt að bjóða, góðan mat, góða veitingastaði, gott súkkulaði, flott föt, og ódýrt að versla.
Við fundum alveg geggjaða og fáránlega ódýra 'second hand' búð með því sjúklegasta skóúrvali sem ég hef á ævinni komist í.
Að sjálfsögðu keypti Naglinn sér ekki bara eina....heldur tvenn skópör...roðn roðn.
Snorri keypti sér dökkbrúnan jakka og ljósbrúnan leðurjakka og hatt í stíl, algjör töffari.
Hann gæti verið meðlimur í Arctic Monkeys eða álíka pönksveit í nýja átfittinu.

Svo tókum við þátt í 17. júní hátíðarhöldunum hjá sendiráðinu, en þau voru haldin aðeins út fyrir borgina. Það var alveg geggjað veður, glampandi sól og 30 stiga hiti.
Svo var Kvennahlaup og við pabbi tókum auðvitað þátt
Naglinn náði fyrsta sæti í hlaupinu, og pabbi gamli gerði sér lítið fyrir og var í þriðja sæti. Sko kallinn!!

Svo fórum við Snorri út að borða um kvöldið á marókkóskan stað, sem var alveg sjúkur.
Ég borðaði svo mikið að ég svitnaði í bókstaflegri merkingu.

Á sunnudaginn keyrðum við öll saman til Brugge, sem er gullfalleg borg rétt hjá Brussel, með pínulitlum götum og síkjum sem renna í gegnum borgina. Húsin hafa öll verið varðveitt mjög vel í sinni upprunalegu mynd.
Við áttum svo pantað með ferjunni yfir til Bretlands kl. 20 á sunnudagskvöldið, svo við vorum ekki komin heim fyrr en um miðnætti, allir frekar þreyttir og lerkaðir.
En það var alveg þess virði því við áttum alveg hreint yndislega helgi.

Mig langar bara aftur um næstu helgi til Brussel.
En lífið er víst ekki bara leikur og ritgerðir skrifa sig víst ekki sjálfar.
Svo það er bara 'good old Guildford again'.

Wednesday, June 14, 2006

Viðreynsla i ræktinni

Jahérna...haldiði að það hafi ekki bara verið reynt við mig í ræktinni áðan.
Gæinn var greinilega að æfa þarna í fyrsta skipti, því það var starfsmaður að sýna honum öll tækin og hann lét gæjann síðan fá prógramm til að gera sjálfur.

Nema hvað að gæinn er greinilega ekki alveg með á hreinu hver tilgangurinn er með að vera í ræktinni....hans hugmynd er greinilega að þetta sé staðurinn til að pikka upp kvenfólk því hann var minnst að lyfta og mest að glápa.
Ég er yfirleitt eina konan á lóðasvæðinu því allar kerlingarnar þarna hanga bara í cardio-i og í kettlingatækjum, og í dag var engin undantekning.
Ég fann illilega fyrir þessu glápi hans og fannst það frekar óþægilegt og vægast sagt pirrandi.
Síðan stendur hann allt í einu fyrir aftan mig þar sem ég er nýbúinn að klára sett, og spyr mig hvort það sé ekki allt í lagi með mig.
Ég játa því að sjálfsögðu.
Hann sagði þá að hann hefði heyrt einhvern dynk og haldið að það væri ég að missa lóðin.
En þar sem hann stóð fyrir aftan mig og horfði á mig gera settið hefði hann átt að sjá að dynkurinn var ekki frá mér!!!
Svo spurði hann mig hvort ég væri frá Póllandi (hvers konar spurning er það eiginlega, glötuð pikk öpp lína), hvað ég héti og hvað ég væri að gera í lífinu.
Ég reyndi að vera eins stutt í spuna og kuldaleg og ég gat með að svara eingöngu því sem hann spurði með eins atkvæðis orðum og gefa honum ekki færi á að spyrja meir með að fara strax að lyfta í hinum enda salarins.

Ég var að reyna að gera honum ljóst að ég (og flestir aðrir) er ekki í ræktinni til að spjalla við mann og annan og síst af öllu nenni ég að vera í 'small talk-i' við einhverja glataða gæja sem eru bara í gymminu til að hamast í kellingunum.

Ég held að hann hafi náð skilaboðunum undir lokin, greyið, því hann lét mig alveg í friði það sem eftir var æfingar.
Vonandi fer hann að einbeita sér að cardio skvísunum héðan í frá.

Monday, June 12, 2006

Að drepast ur hita

Jæja þá er loksins búið að laga internetið í þessu blessaða húsi svo ég er aftur komin í samband við umheiminn. Það er meira hvað maður getur orðið háður þessu fyrirbæri. Það lá niðri alla síðustu viku og ég var komin með fráhvarfseinkenni undir lok vikunnar.

Sem betur fer eyddi ég helginni í London svo ég fann minna fyrir internetleysi þar.
Mamma var nefnilega í London með hóp en átti frídag á laugardaginn.
Við mæðgurnar þrjár, ásamt systursyni mínum áttum gæðastund saman í Kenwood Gardens á laugardaginn í pikknikk.
Það var svo ógeðslega heitt hérna um helgina og er enn, 30 stiga hiti og ekki einn helv&%$# hnoðri á himninum svo það er enginn griður fyrir sólinni.
Ég er ekki gerð fyrir meira en 25 stig, og því þurfti ég að flýja undir tré í skugga með reglulegu millibili á meðan við vorum í garðinum.
Þar sem ég helst ekki mjög lengi við í sólinni í einu hef ég nú sem betur fer sloppið við að brenna enn sem komið er, og er eiginlega bara ennþá alveg trélímshvít, með pínulítið rauðar axlir. Þannig að ég er eiginlega eins og enski fáninn sem blaktir nú á hverju húsi og í hverri bílrúðu hér, til að styðja Englendingana á HM.

Á sunnudaginn fór ég svo með mömmu og hópnum til Stonehenge og Bath.
Ég hafði reyndar komið áður til Stonehenge en ekki til Bath, en sú borg er alveg geggjuð, alveg meiriháttar falleg.
Þar eru rómönsk böð frá tímum Rómverja, en Bath er eina borgin í Bretlandi þar sem eru hverir.
Borgin hefur svolítið ítalskt yfirbragð, með fullt af litlum torgum og byggingarstíllinn er alls ekki týpískt breskur.

En nú er ég aftur í Guildford að vinna í gagnaúrvinnslu og ritgerðarskrifum.
Bara 2 vikur eftir í þessu ljóta húsi með þessum óþolandi mönnum sem lyfta aldrei spönn frá rassi.
Djö....get ég ekki beðið eftir að komast héðan.

Tuesday, June 06, 2006

Back in Guildford

Þá er ég aftur komin til Guildford.

Stoppaði í Edinborg um helgina á leiðinni hingað frá Íslandi. Þar áttum við heittelskaði yndislega helgi sem leið auðvitað alltof hratt. Á laugardagskvöldið fórum við út að borða með Palla, Svenna og Marínó á spænskan stað sem heitir Tapas Tree og býr til bestu Paellu utan Spánar. Þar var mikið hlegið og mikið borðað. Eftir matinn fórum við á hommastaðinn þar sem Naglinn gerði garðinn frægan á gamlárskvöld. Það er reyndar búið að breyta honum svo hann er ekki eins original og hann var þá.
Skotarnir eru alveg gallharðir á þessu reykingabanni sínu og eftir kl 21 máttu ekki fara út með drykkinn þinn og verður að skilja hann eftir í anddyrinu eða inni á borði. Ég skildi minn drykk eftir í anddyrinu. Svo spurði ég dyravörðinn (trukkalessu dauðans) hvort ég mætti fá mér sopa á meðan ég reykti en það var sko ekki til umræðu. Drykkur má ekki fara út fyrir þröskuldinn og sígarettan má ekki koma inn fyrir þröskuldinn. Mér leið eins og í Abu Ghraib fangelsinu!!
Ég beið bara eftir plasthönskum og strípileit...'bend over and cough'.

Nú er ég að byrja á gagnaúrvinnslunni fyrir rannsóknina. Ég hef mjög blendnar tilfinningar gagnvart SPSS vinnunni.
Bæði finnst mér þetta ögrandi því ég er ekki mjög flink í tölfræði og mér finnst áhugavert að sjá hvaða niðurstöður koma út úr rannsókninni.
Á hinn bóginn er ég hrædd við að gera einhverja tóma vitleysu og skrifa svo um kolvitlausar niðurstöður.

Thursday, June 01, 2006

Bæklaði Naglinn

Ég kynntist heilbrigðiskerfi Íslands ansi vel í gær en ég fór bæði til tannlæknis og læknis. Báðar þessar heimsóknir voru ansi skrautlegar.
Tannlæknirinn minn er í fríi svo ég fór á aðra stofu í þetta skiptið.
Mér leist nú ekkert á blikuna þegar ég sá barnið sem átti að krukka í góminn á mér en hún var ekki deginum eldri en ég enda nýútskrifuð.
Deyfingin hjá henni var viðbjóðsur, en ég er orðin nokkuð sjóuð hjá tannlæknum þessa dagana eftir að hafa fengið nýja tönn um daginn og þá fann ég varla fyrir sprautunni.
Hún byrjaði of snemma að bora en deyfingin var ekki orðin virk og ég emjaði, eins mikið og hægt er með galopinn kjaftinn.
Hún sagði að tungan á mér væri alltaf fyrir þar sem hún var að bora, en enginn tannlæknir hefur kvartað yfir henni áður.
Nýgræðingurinn boraði auðvitað óvart í hana og það fossblæddi og ég var hrækjandi blóðblönduðu slefi í langan tíma.
Fröken tönn tjáði mér að tungubotninn á mér væri óeðlilega hár og þess vegna sveiflaðist tungan alltaf í borinn þegar ég kyngdi. Jahá...þá vitiði það...ég er með óeðlilegan tungubotn. Ætli það sé til cosmetic surgery fyrir tungubotna?

Fyrir þessa heimsókn var ég rukkuð um 20 þúsund krónur.
Ég var næstum farin að skæla þegar ég rétti gjaldkeranum debetkorið en hélt aftur af tárunum þar sem það er frekar óhuggulegt að sjá þvoglumælta 27 ára konu með sofandi óeðlilega háa og blóðuga tungu grenja.

Síðan var komið að læknisheimsókninni.
Þar sem hnéð á mér er ekkert að lagast þá pantaði ég tíma hjá bæklunarlækni. Var samt ekki viss hvort það þýðir að ég sé bækluð.
Kannski að tungubotninn flokkist undir bæklun.

Allavega, þá byrjaði ég á að hella niður heilu glasi af vatni á biðstofunni og lá á fjórum fótum að þurrka upp þegar læknirinn kallaði á mig inn til sín. Ég reyndi eitthvað að afsaka mig og hlægja að þessu en honum var ekki skemmt.

Síðan hófst viðtalið og ég sagði honum allt sem ég gat um vandræði mín og hvað gæti hugsanlega valdið hnéverknum.
Eins og sönnum vísindamanni sæmir vildi hann auðvitað líta á hnéð. Sem hefði verið í góðu lagi nema fyrir þær sakir að ég kann greinilega ekki að klæða mig rétt fyrir læknisheimsókn, því ég fór í niðurþröngum gallabuxum sem er ekki með nokkru móti hægt að draga upp fyrir hné. Svo ég þurfti bara vessgú að hysja niður um mig og skella mér upp á bekkinn.
Þetta minnti mig óneitanlega á heimsókn til kollega hans, nema það vantaði bara ístöðin.
Ég er nú ekki spéhrædd og þetta hefði verið allt í lagi ef ég hefði verið í almennilegum naríum, en ég geng alltaf í tangri eða g-string eins og þær nefnast á engilsaxnesku. Þetta þýddi að þegar hann bað mig að snúa mér á hliðina þá fékk félaginn bara rassinn á mér beint í smettið. Svo bað hann mig að standa út á gólfi því hann vildi sjá hvort ég væri kannski með annan fótinn styttri en hinn, og ég þurfti að snúa mér á alla enda og kanta.
Svo nú veit þessi læknir meira um legu rasskinnana á mér en um sjálft hnéð.
Buxurnar þurftu svo aftur að víkja í röntgenmyndatökunni, en það var sem betur fer kvenkynshjúkka sem sá um hana.


Læknirinn ráðlagði mér að létta þyngdirnar í hnébeygjunni, eða sleppa henni og ekki hlaupa neitt.
Verkurinn hefur nú hamlað mér frá hlaupunum og ég hef bara tekið brennsluna á öðrum tækjum eins og skíðavél og þrekstiga.
En ég ætla að vera pínu óþekk því hnébeygjan mun ekki víkja fyrir mitt litla líf enda er hún mín helsta ástríða í lífinu.

Læknirinn sagðist myndu hringja ef eitthvað óeðlilegt kæmi fram á röntgenmyndunum en hann taldi að vandræðin væru í sperrileggnum eða í vöðvafestingum kringum hnéð.

Svo ég bíð núna eftir símtali sem sker úr um hvort ég sé bækluð eða ekki.