Website Counter
Hit Counters

Tuesday, June 20, 2006

Ferðasaga Naglans

Jæja góðir hálsar.

Þá er maður aldeilis endurnærður eftir frábæra helgi.
Ég og Snorri skelltum okkur nefnilega í heimsókn til pabba gamla í Brussel um helgina en hann var að passa Joshua af því Ingibjörg og Chiaka fóru í helgarferð til Istanbúl.
Pabbi kom á bílnum yfir og sótti mig og Joshua á fimmtudaginn, og við fórum öll saman yfir til Frakklands í gegnum Ermarsundsgöngin og þaðan keyrðum við til Brussel.
Ég var svo gáfuð eða þannig að gleyma passanum mínum heima í Guildford. Ég pældi ekki einu sinni í því að maður þyrfti að hafa passa í Eurotunnel-ið, einhvern veginn er það alveg fast í manni að þurfa bara passa þegar maður flýgur.
En þetta slapp, sem betur fer, því öryggiskallarnir báðu ekki einu sinni um að fá að sjá þá.
Bretarnir eru víst miklu strangari en Frakkarnir varðandi fólk sem kemur inn í landið, svo sendiráðið reddaði mér svo bráðabirgðapassa til að sýna á heimleiðinni.
Snorri flaug svo frá Glasgow til Brussel á föstudaginn.

Núna erum við bæði með brjálaðan heimkomubömmer og hefðum auðvitað viljað vera miklu lengur, það er alltaf þannig.
Mér finnst Brussel alltaf skemmtilegri eftir því sem ég kem oftar þangað.
Þessi borg hefur nefnilega upp á alveg ótrúlega margt að bjóða, góðan mat, góða veitingastaði, gott súkkulaði, flott föt, og ódýrt að versla.
Við fundum alveg geggjaða og fáránlega ódýra 'second hand' búð með því sjúklegasta skóúrvali sem ég hef á ævinni komist í.
Að sjálfsögðu keypti Naglinn sér ekki bara eina....heldur tvenn skópör...roðn roðn.
Snorri keypti sér dökkbrúnan jakka og ljósbrúnan leðurjakka og hatt í stíl, algjör töffari.
Hann gæti verið meðlimur í Arctic Monkeys eða álíka pönksveit í nýja átfittinu.

Svo tókum við þátt í 17. júní hátíðarhöldunum hjá sendiráðinu, en þau voru haldin aðeins út fyrir borgina. Það var alveg geggjað veður, glampandi sól og 30 stiga hiti.
Svo var Kvennahlaup og við pabbi tókum auðvitað þátt
Naglinn náði fyrsta sæti í hlaupinu, og pabbi gamli gerði sér lítið fyrir og var í þriðja sæti. Sko kallinn!!

Svo fórum við Snorri út að borða um kvöldið á marókkóskan stað, sem var alveg sjúkur.
Ég borðaði svo mikið að ég svitnaði í bókstaflegri merkingu.

Á sunnudaginn keyrðum við öll saman til Brugge, sem er gullfalleg borg rétt hjá Brussel, með pínulitlum götum og síkjum sem renna í gegnum borgina. Húsin hafa öll verið varðveitt mjög vel í sinni upprunalegu mynd.
Við áttum svo pantað með ferjunni yfir til Bretlands kl. 20 á sunnudagskvöldið, svo við vorum ekki komin heim fyrr en um miðnætti, allir frekar þreyttir og lerkaðir.
En það var alveg þess virði því við áttum alveg hreint yndislega helgi.

Mig langar bara aftur um næstu helgi til Brussel.
En lífið er víst ekki bara leikur og ritgerðir skrifa sig víst ekki sjálfar.
Svo það er bara 'good old Guildford again'.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home