Website Counter
Hit Counters

Thursday, June 01, 2006

Bæklaði Naglinn

Ég kynntist heilbrigðiskerfi Íslands ansi vel í gær en ég fór bæði til tannlæknis og læknis. Báðar þessar heimsóknir voru ansi skrautlegar.
Tannlæknirinn minn er í fríi svo ég fór á aðra stofu í þetta skiptið.
Mér leist nú ekkert á blikuna þegar ég sá barnið sem átti að krukka í góminn á mér en hún var ekki deginum eldri en ég enda nýútskrifuð.
Deyfingin hjá henni var viðbjóðsur, en ég er orðin nokkuð sjóuð hjá tannlæknum þessa dagana eftir að hafa fengið nýja tönn um daginn og þá fann ég varla fyrir sprautunni.
Hún byrjaði of snemma að bora en deyfingin var ekki orðin virk og ég emjaði, eins mikið og hægt er með galopinn kjaftinn.
Hún sagði að tungan á mér væri alltaf fyrir þar sem hún var að bora, en enginn tannlæknir hefur kvartað yfir henni áður.
Nýgræðingurinn boraði auðvitað óvart í hana og það fossblæddi og ég var hrækjandi blóðblönduðu slefi í langan tíma.
Fröken tönn tjáði mér að tungubotninn á mér væri óeðlilega hár og þess vegna sveiflaðist tungan alltaf í borinn þegar ég kyngdi. Jahá...þá vitiði það...ég er með óeðlilegan tungubotn. Ætli það sé til cosmetic surgery fyrir tungubotna?

Fyrir þessa heimsókn var ég rukkuð um 20 þúsund krónur.
Ég var næstum farin að skæla þegar ég rétti gjaldkeranum debetkorið en hélt aftur af tárunum þar sem það er frekar óhuggulegt að sjá þvoglumælta 27 ára konu með sofandi óeðlilega háa og blóðuga tungu grenja.

Síðan var komið að læknisheimsókninni.
Þar sem hnéð á mér er ekkert að lagast þá pantaði ég tíma hjá bæklunarlækni. Var samt ekki viss hvort það þýðir að ég sé bækluð.
Kannski að tungubotninn flokkist undir bæklun.

Allavega, þá byrjaði ég á að hella niður heilu glasi af vatni á biðstofunni og lá á fjórum fótum að þurrka upp þegar læknirinn kallaði á mig inn til sín. Ég reyndi eitthvað að afsaka mig og hlægja að þessu en honum var ekki skemmt.

Síðan hófst viðtalið og ég sagði honum allt sem ég gat um vandræði mín og hvað gæti hugsanlega valdið hnéverknum.
Eins og sönnum vísindamanni sæmir vildi hann auðvitað líta á hnéð. Sem hefði verið í góðu lagi nema fyrir þær sakir að ég kann greinilega ekki að klæða mig rétt fyrir læknisheimsókn, því ég fór í niðurþröngum gallabuxum sem er ekki með nokkru móti hægt að draga upp fyrir hné. Svo ég þurfti bara vessgú að hysja niður um mig og skella mér upp á bekkinn.
Þetta minnti mig óneitanlega á heimsókn til kollega hans, nema það vantaði bara ístöðin.
Ég er nú ekki spéhrædd og þetta hefði verið allt í lagi ef ég hefði verið í almennilegum naríum, en ég geng alltaf í tangri eða g-string eins og þær nefnast á engilsaxnesku. Þetta þýddi að þegar hann bað mig að snúa mér á hliðina þá fékk félaginn bara rassinn á mér beint í smettið. Svo bað hann mig að standa út á gólfi því hann vildi sjá hvort ég væri kannski með annan fótinn styttri en hinn, og ég þurfti að snúa mér á alla enda og kanta.
Svo nú veit þessi læknir meira um legu rasskinnana á mér en um sjálft hnéð.
Buxurnar þurftu svo aftur að víkja í röntgenmyndatökunni, en það var sem betur fer kvenkynshjúkka sem sá um hana.


Læknirinn ráðlagði mér að létta þyngdirnar í hnébeygjunni, eða sleppa henni og ekki hlaupa neitt.
Verkurinn hefur nú hamlað mér frá hlaupunum og ég hef bara tekið brennsluna á öðrum tækjum eins og skíðavél og þrekstiga.
En ég ætla að vera pínu óþekk því hnébeygjan mun ekki víkja fyrir mitt litla líf enda er hún mín helsta ástríða í lífinu.

Læknirinn sagðist myndu hringja ef eitthvað óeðlilegt kæmi fram á röntgenmyndunum en hann taldi að vandræðin væru í sperrileggnum eða í vöðvafestingum kringum hnéð.

Svo ég bíð núna eftir símtali sem sker úr um hvort ég sé bækluð eða ekki.

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

BWWAAHHHHHHHHHAAAAAAAAAAHHHHHHHHHHHAAAAAAAAAAAA!!!! Þú ert algjör snillingur...pant ekki lenda í þessari lífsreynslu :D
En ætlarðu virkilega að halda áfram í þessu hnébeygjustandi þegar augljóslega hnéð er ekki samvinnuþýtt? Hnéin á okkur eru bara gerð til að halda okkar eigin líkamsþyngd uppi...kannski örlítið meir...en allavega eru þín smáu hné á þér smáa kona ekki gerð fyrir allt þetta hlass sem þú ert að lyfta...ég held að Naglinn verði að játa sig sigraða í þessu sambandi...

10:11 PM  
Blogger Naglinn said...

Nei!! Naglinn mun berjast til síðasta liðþófa í þessu máli og þrjóskast við.
Hnébeygjan ain't going nowhere!!

10:19 AM  

Post a Comment

<< Home