Náungakærleikurinn
Ég var á leiðinni í Bónus í gær sem er ekki í frásögur færandi nema að þegar ég var að bakka út úr stæðinu fyrir utan hjá okkur, þá pikkfesti ég bílinn þannig að hann stóð hálfur út á Sogaveg og hálfur inni í stæðinu.
Sem sagt, afar óheppileg staðsetning.
Ég reyndi að rifja upp hvað stóð í ökunámsbókinni um hvað maður gerir í svona aðstæðum, en reynsla mín af svona löguðu er afar fátækleg og kvenheili minn afar takmarkaður í að finna leið út úr slíkum vandræðum.
Svo ég reyndi að bakka og snúa stýrinu, fara áfram og snúa í hina áttina, gefa í, moka frá dekkjunum með höndunum, setja í hlutlausan og reyna að ýta sjálf.
Það hefur ábyggilega verið efni í Falda myndavél að sjá mig, djöflast á húddinu á bílnum í rennisléttbotnuðum pæjustígvélum spólandi í snjónum að reyna að ýta bíl sem auðvitað haggaðist ekki.
Og þar sem ég hamaðist, þá þurftu vegfarendur Sogavegs að taka stóran krók fram hjá mér til að komast leiðar sinnar.
En datt þeim í hug að stoppa og bjóða fram aðstoð... neeeeiiii nei nei.
En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst.
Þar sem ég stóð þarna, alveg við það að gefast upp, sótbölvandi íslensku afskiptaleysi, og jarðsöng náungakærleikann, þá snöruðu tveir yndislegir piltar sér út úr bíl sínum og buðu fram krafta sína.
Þeir voru meira að segja klæddir til verksins, í snjóbuxum með skíðahanska.
Og skömmu síðar birtust tveir af rússnesku nágrönnum mínum til að aðstoða... "we help...yes".
Með sameiginlegu átaki þessara fjögurra sómadrengja losnaði bíllinn og ég sendi þeim öllum ástarkveðju og fingurkoss fyrir hjálpina.
Semsagt, náungakærleikurinn er ekki dauður.... bara vandfundinn.
Strákar mínir, ef þið lesið þetta... þið eruð æði og hjartans þakkir.
"Sposiba" my Russian friends.
0 Comments:
Post a Comment
<< Home