Website Counter
Hit Counters

Wednesday, October 25, 2006

Ragga Rúdolf

Díses kræst!!
Hvað er málið!!

Hvað haldið þið að hafi gerst í vinnunni í dag?? Ég var spurð af konu sem vinnur hér á deildinni hvort ég væri ólétt.
Þetta er í annað skipti sem ég er spurð þessarar ömurlegu spurningar, og hún er farin að hafa alvarleg áhrif á komplexa mína af vaxtarlaginu.
Þegar ég neitaði og spurði hvort henni fyndist ég hafa fitnað, þá varð kellingarófétið hin vandræðalegasta og afsakaði sig með að ég væri oft svo rauð í kringum "nebbann" og það gæfi oft til kynna að kona væri ólétt.

Eins og það væri eitthvað betra, að líta út eins og rassálfarnir í Ronju ræningjadóttur með rautt kartöflunef.
Ég er reyndar oft með rautt nef, og finnst það ekki gaman.
Það er því algjör óþarfi að núa salti í sárið.

Fólk á ekki að spyrja konur hvort þær séu ólétta fyrr en þær eru komnar vel á níunda mánuð og það leikur enginn vafi á ástandi þeirra!!
Helst bara ekki fyrr en krakkinn er fæddur til að vera alveg viss.

Monday, October 23, 2006

Blóðpeningar

Ég þoli ekki að skulda peninga og borga alltaf alla reikninga á gjalddaga. Hins vegar neyddist ég til að taka yfirdrátt síðasta vetur til að geta borgað leiguna í Guildford, því námslánin dugðu vart fyrir salti í grautinn og sultarólin var orðin ótæpilega þröng þegar leið á vorið. Það fer samt ekki lítið í taugarnar á mér að hafa þennan yfirdrátt hangandi yfir mér, enda er ég á fullu að reyna að borga hann upp núna þegar ég er komin með tekjur.

En á dögunum fékk hinn skilvísi Nagli innheimtubréf frá Intrum. Og fyrir hvað?? Einhverja helv...vídeo spólu sem ég skilaði of seint fyrir löngu síðan. "Skuld sem er komin í vanskil" segir í bréfinu, og mér var gert að borga 2.308 krónur takk fyrir takk. Pay and smile bara!!

Ég man nú ekki einu sinni eftir þessari mynd sem á að hafa ílengst í DVD-spilaranum okkar, Cold Creek Manor heitir hún víst.
Það er eins gott að þessi mynd sé eitt mesta meistaraverk kvikmyndasögunnar fyrst að ég þurfti að borga hátt á þriðja þúsund fyrir þessa tvo tíma.

Illa pirruð borgaði ég Intrum mönnum, en það voru blóðpeningar sem greiddu þessa skuld.
En ég ætlaði sko ekki að gera einhverjum videoleigu-eiganda í Hlíðunum það til geðs að koma mínu (næstum) skuldlausa nafni á vanskilaskrá, ó nei!!

Wednesday, October 18, 2006

Heimsmalin reifuð

Ég er ekkert smá ánægð með að við Íslendingarnir erum aftur farin að veiða hval. Mér finnst ekki að við eigum að hætta aldagamalli hefð bara af því Frode Pleym og sértrúarsöfnuður hans eru með eitthvað væl.
Svo er hrefnukjöt algjört lostæti og synd að svo fáir Íslendingar kunni að meta það.

Mér varð flökurt í gær þegar lögunum hans Bush gegn hryðjuverkamönnum var lýst í fréttum. Ég trúi ekki að þessir hálfvitar í BNA hafi samþykkt viðurstyggileg pyntingarlög sem brjóta í bága við allt sem kallast siðferði og fela í sér afturhvarf til miðalda . Það er til háborinnar skammar fyrir alþjóðasamfélagið að leyfa lesblindum, illa gefnum, þröngsýnum og illa upplýstum kókaínneytanda að semja sín eigin lög í sínu eigin stríði gegn hryðjuverkamönnum.
Meira að segja bandaríski herinn er á móti því að nota þessar ómannúðlegu aðferðir sem boðaðar eru í þessum óhugnaðarlögum, því þeir segja að upplýsingar sem séu fengnar með þessum hætti séu ómarktækar.
Enda myndi ég játa á mig hvað sem er ef ég væri látin standa upprétt í 40 klst án svefns!!

Við Snorri vorum að spá hvort heimasíminn okkar væri hleraður.
Það er samt lítið að gera hjá þeim hlerara og varla þörf fyrir stöðuga vakt á okkar tól. Meira svona einu sinni í viku.
Veit samt ekki hvort upplýsingar um það hvenær við eigum að mæta í mat hjá tengdó gagnist eitthvað í baráttunni við kommúnisma.
Hins vegar eru örugglega nokkrir hlerarar á sólarhringsvöktum á síma móður minnar, enda of mikið upplýsingastreymi sem fer í gegnum það tól fyrir bara einn mann.

Monday, October 16, 2006

Mánudagsbömmer

Oj oj oj hvað ég nenni ekki að vera í vinnunni í dag. Það er mánudagur dauðans!!

Ég þurfti að beita mig alefli að drattast fram úr bælinu í morgun til að fara í ræktina, en þar hlussaðist ég á skíðavélinni með bumbuna út í loftið eftir nammidaginn í gær. Það kemur á óvart að enginn skuli hafa spurt mig hvenær ég ætti von á mér.
Helgin var reyndar algjör snilld. Á föstudagskvöldið fórum við í afmæli hjá föðursystur minni og síðan á jazz tónleika á Nasa með Útlendingahersveitinni í boði Landsvirkjunar.
Á laugardagskvöldið var matarboð hjá æskuvini pabba, Eiríki Briem og Gunnu konunni hans, með börnunum þeirra, en þetta er árlegur viðburður og alltaf jafn skemmtilegt að hitta þau.
Við krakkarnir erum öll á svipuðum aldri og höfum alltaf verið góðir vinir.
Það var vel gert við okkur í mat og drykk, eiginlega einum of vel í drykk, enda fann maður fyrir því í gær. Við skötuhjúin hreyfðum varla legg né lið allan daginn í gær og ég man ekki eftir jafn afkastalitlum degi eins og sunnudeginum 15. október 2006.
Við lágum og horfðum á imbann allan daginn og ég át á mig gat.

Ég á við eitthvað vandamál að stríða þegar kemur að nammideginum, en þá fjúka allar hömlur út í veður og vind og ég sest bara að í ísskápnum og er á beit allan daginn. Ég meina, hver borðar fjórar skálar í röð af Cheerios með súrmjólk og púðursykri???
Ég held að þetta vandamál kallist GRÆÐGI!!

Jæja góðir hálsar, njótið mánudagsins.

Friday, October 13, 2006

The þrekmeister

Jæja góðir hálsar.
Þá er Naglinn loksins búinn að keppa í einhverju. Þrekmeistarinn var tekinn með trompi laugardaginn 7. október í íþrótta"höll" Akureyrar. Þetta var hörkupuð en hrikalega gaman og ekki spurning að ég ætla að taka þátt aftur í vor. Enda verð ég að bæta tímann, en ég kláraði brautina á 21:48 sem er ágætt miðað við fyrsta skipti en ekki nógu gott ef litið er til tíma hinna. Sú sem vann var með rakettu í rassgatinu og fór brautina á 17 mínútum.
Það var líka alveg nauðsynlegt að taka þátt til að sjá í hvaða greinum ég þarf að bæta mig og hvernig maður á að framkvæma æfingarnar þannig að dómarinn sé sáttur. Það kom mér reyndar svolítið á óvart hversu auðvelt er að svindla í mörgum greinunum, en til dæmis hafði ég miklar áhyggjur af að geta ekki gert uppseturnar (kviðæfing) eins og til var ætlast en það kom hins vegar í ljós að margir svindluðu feitt þar. Mér finnst það ekki vera mælikvarði á styrk eða þrek hversu góður maður er að blaka olnbogunum fram og til baka.

Í gærkvöldi renndum við Sno upp í Borgarnes með stellinu mínu að sjá Mr. Skallagrímsson í Landnámssetrinu. Það var þvílíkt góð og fyndin sýning og ég mæli með henni hiklaust við alla. Benedikt fór á kostum og manni leiddist ekki í eina mínútu enda í hláturskasti nánast allan tímann.

Helgin er fullbókuð af félagslegum athöfnum, sem er nýlunda í mínu lífi því okkur er yfirleitt aldrei boðið neitt, en neeeiii nú er okkur boðið í þrjú partý sama kvöldið.

Góða helgi gott fólk.