Jæja jæja,
Mánudagur mættur í öllu sínu veldi með 32 stiga hita og gegndarlausri sól sem skiptir svosem ekki máli þegar maður er hlekkjaður við kjöltutölvuna í allan dag.
Enn ein frábær helgi að baki.
Minn heittelskaði kom í heimsókn um helgina og við áttum tvo yndislega og hreinlega fullkomna daga saman og brölluðum ýmislegt skemmtilegt:
- Gengum okkur upp að öxlum um Oxford stræti og nágrenni, versluðum, sáum Jimmy Floyd Hasselbaink í Selfridges
- Út að borða með Nick, bróður hans og ítalskri vinkonu þeirra
- Snorri höslaður af magadansmær á veitingastaðnum og ég dó úr hlátri
- Borough market, brunch í garðinum í sunshine lolly
- Upper street þrætt, bíó á Pirates of the Caribbean, grillaðir hamborgarar
- Camden
Hins vegar var helgin ekki svo skemmtileg fyrir sambýling minn, hann Graham og kærustuna hans.
Á einhvern óskiljanlegan hátt eignaðist hann kanadíska kærustu fyrir nokkrum mánuðum í ferðalagi sínu til New York.
Hún kom svo hingað um helgina og planið var að vera hér í heimsókn í 3 vikur og fara með nördinum til Krítar í nokkra daga.
Ég og Páll í kjallaranum höfum mikið verið að velta fyrir okkur hvað geti verið að stúlkunni, því það getur engin heilvita manneskja verið með manninum lengur en í hálftíma án þess að vera byrjuð að hnýta snöruna.
Við höfum komið með hinar ýmsu tilgátur, sem allar kolféllu þegar við hittum hana.
Hún er t.d ekki daufdumba, en við bjuggumst við Helen Keller eintaki, annað fannst okkur ekki koma til greina en að hún væri blind og heyrnarlaus, því maðurinn er svo leiðinlegur að maður óskar sér að skilningavitin nemi ekki það sem hann segir.
Hún er ekki í sértrúarsöfnuði, hún er ekki með þrjú augu, þrjár hendur né þrjár lappir en einhvers konar líkamlegir annmarkar fannst okkur mjög líklegir.
Hún er bara alveg svakalega indæl, mjög svo normal og virðist vera toppmanneskja, allavega við fyrstu kynni.
En tollverðirnir á Gatwick voru nú ekki alveg sammála um gæði stúlkunnar því við komuna til veldis hennar hátignar var henni hent í tukthúsið þar sem hún mátti dúsa í 4 klukkutíma um miðja nótt eftir að hafa setið í 2 tíma yfirheyrslu þar sem hún var spurð um tilgang ferðarinnar, vinnuna hennar, fortíð hennar og framtíð og smæstu smáatriði varðandi Graham, hana, þeirra samband, foreldra þeirra, systkini, ömmur og afa.
Ástæðan fyrir þessum ósköpum var sú að tollverðirnir sáu að hún hafði verið með atvinnuleyfi hér fyrir nokkrum árum og hafði svo verið neitað þegar hún sótti um það aftur núna nýlega, því fólk í sambandslöndunum fær víst bara einu sinni atvinnuleyfi. Hins vegar geta þeir ekki bannað henni að koma hingað til Bretlands í frí en tollurinn var svona skemmtilega tortrygginn að þeir ákváðu að þessi 23ja ára ljóshærða, bláeygða kanadíska stúlka væri kaldrifjaður glæpamaður sem hingað væri komin í þeim eina tilgangi að giftast nördinum til að fá vinnuleyfi og misnota þannig heilaga kerfið þeirra.
Henni var svo sleppt með semingi, en það er ekki víst að hún fái nokkuð að koma inn í landið aftur, svo Krítarferðin þeirra gæti verið fokin út í veður og vind.
Já það er vandlifað í þessum heimi.
Ég er samt að velta fyrir mér,fyrst hún fær þessa meðferð hér í Bretlandi, hvað ef þetta hefði gerst í United States of Paranoia?