Fátækt á Íslandi
Undanfarna daga hef ég verið að fylgjast með umræðunni um fátækt á Íslandi og verð að segja að mér finnst það til háborinnar skammar að í velferðarsamfélaginu þurfi fólk að við að standa í röð í 3 tíma í snjókomu og skítakulda til að fá mjólkurpott frá Fjölskylduhjálp Íslands.
Og það er ekki eins og fólk geri þetta að gamni sínu, eða tími ekki að fara í Hagkaup. Fólk þarf að gjöra svo vel og kyngja stolti sínu og þiggja ölmusu frá góðgerðarsamtökum og vandalausum.
Það var kona í viðtali í Ísland í bítið s. l föstudag að segja frá baráttu sinni við fátæktarpúkann, og það var margt athygli vert sem kom fram þar.
Til dæmis nefndi hún lánagleði bankanna, og hversu auðvelt það er að lengja skuldahalann með yfirdráttum og lánum.
Hún sagði líka að það væri mjög erfitt fyrir fólk sem ekki er með stúdentspróf að fara í nám, því í háskólanám er krafist stúdentsprófs og verkmenntun er ekki lánshæf hjá LÍN.
Engir námsstyrkir eru í boði fyrir fólk á Íslandi, ólíkt því sem gerist á Norðurlöndunum sem er auðvitað til skammar.
Við Snorri ræddum það einmitt að hvorugt okkar hefði getað farið í nám erlendis ef við ættum ekki foreldrar okkar að, sem styrktu okkur um það sem upp á vantaði eftir að LÍN sendi skömmtunarseðilinn.
Í ljósi þessarar umræðu um fátækt á Íslandi, þá hvet ég alla sem vettlingi geta valdið að láta gott af sér leiða þessi jólin og styrkja þá sem ekki ná endum saman.
Það er til dæmis hægt að fara með gömlu sparifötin sem maður er hættur að nota í Sætún, en þar er Fjölskylduhjálp að dreifa því til fólks sem ekki hefur efni á nýju dressi.
Svo er hægt að kaupa eina aukagjöf handa barni og setja undir jólatréð í Smáralind eða Kringlunni, og tryggja þar með að jólin verði gleðileg fátæku barni.
Síðan eiga allir að styrkja fátæk börn úti í heimi allt árið um kring, eins og Unicef, Hjálparstofnun kirkjunnar, ABC o. fl.
Hver getur ekki séð á eftir 1000 kr á mánuði???
Bara sleppa einni bíóferð eða pizzu.