Website Counter
Hit Counters

Friday, December 15, 2006

Fátækt á Íslandi

Undanfarna daga hef ég verið að fylgjast með umræðunni um fátækt á Íslandi og verð að segja að mér finnst það til háborinnar skammar að í velferðarsamfélaginu þurfi fólk að við að standa í röð í 3 tíma í snjókomu og skítakulda til að fá mjólkurpott frá Fjölskylduhjálp Íslands.
Og það er ekki eins og fólk geri þetta að gamni sínu, eða tími ekki að fara í Hagkaup. Fólk þarf að gjöra svo vel og kyngja stolti sínu og þiggja ölmusu frá góðgerðarsamtökum og vandalausum.

Það var kona í viðtali í Ísland í bítið s. l föstudag að segja frá baráttu sinni við fátæktarpúkann, og það var margt athygli vert sem kom fram þar.
Til dæmis nefndi hún lánagleði bankanna, og hversu auðvelt það er að lengja skuldahalann með yfirdráttum og lánum.
Hún sagði líka að það væri mjög erfitt fyrir fólk sem ekki er með stúdentspróf að fara í nám, því í háskólanám er krafist stúdentsprófs og verkmenntun er ekki lánshæf hjá LÍN.
Engir námsstyrkir eru í boði fyrir fólk á Íslandi, ólíkt því sem gerist á Norðurlöndunum sem er auðvitað til skammar.

Við Snorri ræddum það einmitt að hvorugt okkar hefði getað farið í nám erlendis ef við ættum ekki foreldrar okkar að, sem styrktu okkur um það sem upp á vantaði eftir að LÍN sendi skömmtunarseðilinn.

Í ljósi þessarar umræðu um fátækt á Íslandi, þá hvet ég alla sem vettlingi geta valdið að láta gott af sér leiða þessi jólin og styrkja þá sem ekki ná endum saman.

Það er til dæmis hægt að fara með gömlu sparifötin sem maður er hættur að nota í Sætún, en þar er Fjölskylduhjálp að dreifa því til fólks sem ekki hefur efni á nýju dressi.
Svo er hægt að kaupa eina aukagjöf handa barni og setja undir jólatréð í Smáralind eða Kringlunni, og tryggja þar með að jólin verði gleðileg fátæku barni.
Síðan eiga allir að styrkja fátæk börn úti í heimi allt árið um kring, eins og Unicef, Hjálparstofnun kirkjunnar, ABC o. fl.
Hver getur ekki séð á eftir 1000 kr á mánuði???
Bara sleppa einni bíóferð eða pizzu.

Wednesday, December 13, 2006

Jólasaga

Á sunnudaginn var, annan sunnudag í aðventu, ákváðu margir landsbyggðabúar að skella sér í bíltúr með fjölskylduna til Reykjavíkur í verslunarferð fyrir jólin.
Eftir vel heppnaðan dag var kominn tími á heimferð enda allir orðnir lúnir eftir að hafa þrammað sig upp að hnjám Kringlu, Smára og Laugaveg með sigg í lófum eftir pokaburð.

Eftirvænting eftir sunnudagssteikinni sem beið þeirra í ofninum heima í sveitinni skein úr augum fjölskyldumeðlima. En þegar komið var undir Esjurætur kárnaði nú heldur gamanið hjá blessuðu landsbyggðafólkinu og höfuðborgarbúum sem voru á leið í aðventu-heimsókn til ættingja sinna úti á landi.
Lögguasnarnir höfðu lokað veginum og það gjörsamlega að ástæðulausu. Eitthvað smotteríis samstuð milli tveggja bíla var allt og sumt sem hafði gerst en samt var þreyttum ferðalöngum neitað um að komast áfram leiðar sinnar heim í heiðardalinn.

Heppnin var þó þeim sem voru fyrr á ferð því þeir gátu brunað fram hjá árekstrinum á ógnarhraða og náðu því lambalærið í tæka tíð. Þeir rétt náðu samt að forða stórslysi með að sveigja fram hjá hálfvitunum sem bogruðu yfir einhverjum aumingja sem lá bara eins og slytti á miðjum veginum.
En hinir sem voru svo óheppnir að koma seinna máttu bara dúsa í biðröð tímunum saman.

Sumir gerðu það eina rétta og hringdu í löggufíflin og sögðu þeim að hunskast til að hreinsa þessar bíldruslur af veginum, og það hið snarasta, enda búið að flytja dauða kallinn í burtu og steikin að brenna við í ofninum og kartöflumúsin orðin köld.

Það er greinilegt að lögguandskotarnir í Reykjavík skilja ekki hve mikilvægar aðventustundir fjölskyldunnar eru.

Sunday, December 10, 2006

Ragga Laddi

Ha ha ha.... glensið mitt virkaði greinilega!!!
Ég er ekki að fara að gifta mig heldur er ég að fara að eignast nýtt frændsystkini en elskuleg systir mín er ófrísk og er sett 7. júlí.
Dagsetningin bauð alveg upp á að fólk myndi halda að það væri loksins komið bryllup hjá okkur Snorra.
Þetta fannst mér voðalega fyndið.

Sorry guys!

Ætli ég sé ekki búin að hrópa úlfur úlfur og enginn mætir í brúðkaupið okkar þegar af því verður.

Wednesday, December 06, 2006

7/7/07

Eftir að hafa átt innilegar samræður við nákominn aðila þá tilkynnist það hér með að laugardagurinn 7. júlí 2007 verður mikill hamingjudagur í okkar lífi, og ég verð víst vant við látin þann dag.

Blóm og kransar vinsamlegast afþakkaðir.

Monday, December 04, 2006

Hörmungarástand í Naglanum

Helvítis mánudagur aftur.
Öll líkamsstarfsemi er í hönk eftir helgina.

Aumingja lifrin og lungun urðu fyrir eiturefnaárás.
Maginn þurfti að kalla út aukamannskap um helgina til að melta óheyrilegt magn fóðurs í formi pizzu, íss, nammi, brauðs, múslí o.s.frv.
Táslurnar eru með blöðrur, og hællinn er sár eftir að hafa skakklappast á pinnahælum í fleiri klukkutíma.
Veruleg röskun varð á starfsemi nýrna því vatnsbúskapurinn varð fyrir tjóni, með tilheyrandi ofþornun og bjúgsöfnun í andliti og á puttum.

Nú virðist starfsemi skrokksins hins vegar vera komin í eðlilegt horf eftir hörmungar helgarinnar.
Ég lít því ekki lengur út eins og kasólétt litla systir Shrek og get látið sjá mig á almannafæri aftur án þess að hræða lítil börn.