Jólasaga
Á sunnudaginn var, annan sunnudag í aðventu, ákváðu margir landsbyggðabúar að skella sér í bíltúr með fjölskylduna til Reykjavíkur í verslunarferð fyrir jólin.
Eftir vel heppnaðan dag var kominn tími á heimferð enda allir orðnir lúnir eftir að hafa þrammað sig upp að hnjám Kringlu, Smára og Laugaveg með sigg í lófum eftir pokaburð.
Eftirvænting eftir sunnudagssteikinni sem beið þeirra í ofninum heima í sveitinni skein úr augum fjölskyldumeðlima. En þegar komið var undir Esjurætur kárnaði nú heldur gamanið hjá blessuðu landsbyggðafólkinu og höfuðborgarbúum sem voru á leið í aðventu-heimsókn til ættingja sinna úti á landi.
Lögguasnarnir höfðu lokað veginum og það gjörsamlega að ástæðulausu. Eitthvað smotteríis samstuð milli tveggja bíla var allt og sumt sem hafði gerst en samt var þreyttum ferðalöngum neitað um að komast áfram leiðar sinnar heim í heiðardalinn.
Heppnin var þó þeim sem voru fyrr á ferð því þeir gátu brunað fram hjá árekstrinum á ógnarhraða og náðu því lambalærið í tæka tíð. Þeir rétt náðu samt að forða stórslysi með að sveigja fram hjá hálfvitunum sem bogruðu yfir einhverjum aumingja sem lá bara eins og slytti á miðjum veginum.
En hinir sem voru svo óheppnir að koma seinna máttu bara dúsa í biðröð tímunum saman.
Sumir gerðu það eina rétta og hringdu í löggufíflin og sögðu þeim að hunskast til að hreinsa þessar bíldruslur af veginum, og það hið snarasta, enda búið að flytja dauða kallinn í burtu og steikin að brenna við í ofninum og kartöflumúsin orðin köld.
Það er greinilegt að lögguandskotarnir í Reykjavík skilja ekki hve mikilvægar aðventustundir fjölskyldunnar eru.
0 Comments:
Post a Comment
<< Home