Website Counter
Hit Counters

Tuesday, February 27, 2007

Breytt vefsvæði

Góðir hálsar.

Ég hef ákveðið að skipta um vettvang fyrir kjaftavaðalinn minn og mun í framtíðinni láta gamminn geysa
hérna.

Vonandi fylgið þið mér á nýjar slóðir.

Friday, February 23, 2007

Fasistaríkið Ísland

Í hvers konar fasistaríki búum við eiginlega?

Er staðan virkilega orðin þannig að stjórnvöld eru farin að stjórna því hverjir mega koma til landsins?
Fólk sem starfar við klámiðnaðinn má ekki koma og skoða Gullfoss og Geysi, Kínverjar sem stunda leikfimi á torgum úti mega ekki koma, mótorhjólamenn í ákveðnum samtökum mega ekki koma.

Menn hafa engin haldbær rök fyrir því að banna klámfólkinu að koma hingað.
Það eru engar sannanir til fyrir því að mansal, barnaklám eða fíkniefnaneysla eða hvað annað sem var búið að klína á þetta fólk viðgangist í þeirra hópi.

Eigum við þá ekki að banna öldruðum Þjóðverjum að sækja landið heim, þeir gætu hafa stutt Hitler í gamla daga. Bönnum líka múslimum að koma, þeir ætla kannski að sprengja upp Kringluna.

Hvar á eiginlega að draga mörkin í þessari nýju takmarkanastefnu?
Eigum við að krefjast þess að allir sem kaupa sér ferð til Íslands, þurfi að fylla út persónulýsingu með nákvæmum upplýsingum um áhugamál og fyrri störf.
Ef stjórnvöldum líkar ekki við aldur og fyrri störf viðkomandi, munu íslensk hótel hliðholl ríkisstjórninni neita honum um gistingu.
Til dæmis ef hann heldur upp á hljómsveit sem Geir fílar ekki, eða finnst kræklingur gómsætur og Guðni er með skelfisksofnæmi.

Hefði ekki verið nær að leyfa klámfólkinu að koma hingað og ef þau hefðu verið uppdópuð um borg og bý, að hamast á litlum börnum með austantjaldskonur og hass á sölubásum á Austurvelli, þá hefði verið hægt að réttlæta úthýsingu þeirra.

Dæmið ekki hundinn af hárunum!!

Wednesday, February 21, 2007

Sjúkdómavæðing

Heilbrigðisráðherra tilkynnti á dögunum að ekki stæði til að sálfræðingar yrðu teknir inn í tryggingakerfið.

Þetta þykja mér sorgleg tíðindi, enda hafa sálfræðingar lengi barist fyrir þessu máli.
Þessi staða sálfræðinga að vera utan almanna tryggingakerfisins veldur því að fólk sem glímir við andlega vanlíðan sækir sér frekar aðstoð geðlækna frekar en sálfræðinga sökum þess kostnaðar sem felst í sálfræðiþjónustu.

En geðlæknar veita ekki samtalsmeðferð og hugræna atferlismeðferð líkt og sálfræðingar, heldur meðhöndla þeir bara einkenni með því að skrifa upp á kemískar lausnir í pilluformi frá einhverjum fabrikkum í Belgíu, í stað þess að komast að rót vandans og fyrirbyggja þannig áframhaldandi veikindi líkt og nálgun sálfræðinga felst í.

Hugræn atferlismeðferð sem sálfræðingar nota byggir á að skilja hvernig hugsanir hafa áhrif á tilfinningar og hegðun , og reynt er að fá einstaklinginn til að breyta þeim hugsunum sem valda vanlíðaninni og mynda nýtt mynstur hugsana og hegðunar.
Þannig er reynt að komast að rót vandans, og þannig koma í veg fyrir að sjúklegt ástand hugans endurtaki sig.

Lyfjafyrirtækjum er auðvitað hagur í því að fólk sé áfram sjúklingar og bryðji pillurnar þeirra eins og Smartís, enda er það liður í markaðsáætlun þeirra að viðhalda veikindum fólks. Læknum er meira að segja boðin þóknun og alls kyns fríðindi frá lyfjafyrirtækjum ef þeir lofa að skrifa upp á þeirra afurðir.

Ég bara spyr, ætlar heilbrigðisráðherra virkilega ekki að reyna að koma í veg fyrir að hérlendis blossi upp sama sjúkdómavæðing eins og er til dæmis orðin landlæg í Bandaríkjunum?
Getum við virkilega státað okkur af fullkomnu heilbrigðiskerfi, þegar annar hver maður fær bara fínan sjúrnal í skrá Landspítalans, en ekki viðeigandi lausn sinna mála?

Wednesday, February 14, 2007

B B B B

Hafið þið tekið eftir því að helsta fréttaefni þessa stundina byrjar allt á B: Byrgið, Bjarg, Breiðavík, Baugur.
Svo eru ekkert nema neikvæðar og ljótar fréttir í gangi þessa stundina.
Maður kveikir ekki svo á fréttum nema að heyra um að einhver minnihlutahópur hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi, saklaus börn í Kompás og Breiðavík, langt leiddir fíkniefnaneytendur í Byrginu og heyrnarlausir.

Síðan eys ríkið almannafé í fíflalegt leikrit sem sýnt er í sölum Hæstaréttar þessa dagana, með Sigurð Tómas og Jón Ásgeir í aðalhlutverkum. Með aukahlutverk fara Jón Gerald Sull"eitthvað" og Gestur Jónsson. Það væri nær að eyða þeim tugum milljóna sem hafa farið í þennan skrípaleik í að brauðfæða eitthvað af sveltandi börnum jarðar.
Svo ég tali nú ekki ógrátandi um peninga-austrið sem fór í að halda uppi sadó-masó fíklinum í Rockville á nýjum gemsum og jeppum.
Það var ekki einu sinni gerð úttekt á því hvort þessi svokallaða "meðferð" bar árangur og bara "pay and smile" við hver fjárlög í þennan aumingja.
Ég meina "komm on", hvernig á eitthvað hallelúja kjaftæði að geta hjálpað fíklum og áfengissjúklingum að sigrast á sínum vandamálum??

Þetta Byrgismál er náttúrulega bara skandall, og það sem verra er að ekki kjaftur innan veggja Alþingis ætlar að taka ábyrgð á málinu.
Sem er auðvitað týpískt fyrir Ísland, pólitíkusar fá alltaf að komast upp með allan fjandann.
Ef þetta hefði gerst í Bretlandi, hefði félagsmálaráðherra, heilbrigðisráðherra og formaður fjárlaganefndar þurft að taka mal sinn og gakk.... vessgú og bara út með þá.
Nei nei ekki á litla Íslandi... enn og aftur kem ég að dyramottuhlutverki landans... við látum vaða yfir okkur á skítugum skónum trekk í trekk.

Friday, February 09, 2007

Flottræfilsháttur landans

Þar sem hárið á Naglanum var farið að minna ískyggilega á greiðslu föður míns í kringum 1970 var ferð á hárgreiðslustofuna orðin óhjákvæmileg.
Það væri svosem ekki í frásögur færandi nema ég og klippistúlkan áttum það sameiginlegt að vera báðar nýfluttar að utan en hún og maðurinn hennar höfðu búið í Danmörku um árabil.
Það má segja að hér hafi skrattinn hitt ömmu sína, því við vorum báðar svarnir andstæðingar lúxusskuldasöfnunar landans, og gátum dissað þennan lífsstíl saman.
Hún sagðist einmitt vera að streitast á móti að sogast ekki inn í lífsgæðakapphlaupið hér á Íslandi, enda þekktist svona flottræfilsháttur ekki í hennar samfélagi í Danmörku.

Þegar þau hjónin fluttu heim síðasta vor keyptu þau sér blokkaríbúð í Grafarvogi, sem voru víst titlaðar verkamannablokkir.
Eftir að þau voru nýflutt inn, voru allir sem komu í heimsókn til þeirra að spyrja þau hvenær (ath ekki hvort) þau ætluðu að skipta út dúknum af eldhúsgólfinu og skipta um eldhúsinnréttingar, sem voru ósköp venjulegar IKEA innréttingar. Þau höfðu ekki einu sinni spáð í þessa hluti, en allir vinir þeirra voru hálf hneykslaðir á þeim að ætla ekki að "taka íbúðina í gegn".

Þessi saga fannst mér einmitt lýsandi fyrir hugsunarháttinn í dag.
Fólk kaupir heilu húsin, bara til að rífa þau og byggja nýtt.
Það þarf allt að vera "nýjast" og "flottast", þú ert ekki maður með mönnum nema að vera með sófasett úr Natuzzi á Visa-rað, eða að taka í gegn efri hæðina og skipta yfir í sérinnflutt parket úr sjaldgæfri regnskógaeik sem vex bara á einum hektara í Amazon.

Þá fór ég að velta fyrir mér af hverju við Íslendingar erum með þetta kaupæði og breytingaæði.
Ég held að okkur leiðist bara.
Það er myrkur og norðanvosbúð á þessu blessaða skeri 9 mánuði á ári, og við búum bara til svona vesen til að hafa eitthvað fyrir stafni.

Þess vegna eru allir að breyta og byggja, henda gömlu og kaupa nýtt.
Ég held að flottræflar landsins ættu að fara að finna sér ódýrara áhugamál.

Góða helgi gott fólk.

Saturday, February 03, 2007

X-faktorinn

Horfði á X-faktorinn í gærkvöldi og ég má til með að lýsa óánægju minni með þennan þátt.

Í fyrsta lagi er það Ellý í Q4U. Manneskjan kemur ekki útúr sér heillegri setningu þegar hún er að kynna keppendurna, heldur stamar hún útúr sér orðunum samhengislaust og röddin í henni virkar engan veginn í sjónvarpi. Svo er hún með silungavarir spikfullar af sílíkoni og svo bótoxuð að það sjást engin svipbrigði, alltaf með sama svipinn sama hvort hún er glöð eða sorgmædd.

Svo er það kynnirinn hún Halla Vilhjálmsdóttir, hún er alveg hrikalega óörugg og engan veginn að valda þessu hlutverki.
Það vantar allt fútt í hana og hún nær engan veginn að ná upp neinu spennustigi eða stemmningu í salnum eða heima í stofu.

Þegar maður ber þáttinn saman við fyrirmyndina frá Bretlandi þá er of mikill amatörismi í gangi hjá þeim á Stöð 2.

Mér finnst alveg fáránlegt að þeir sem ná að smala sem flestum atkvæðum, þeir komast áfram, óháð því hversu góðir þeir eru.
Ég veit að þetta fyrirkomulag er við lýði í öllum símakosningakeppnum en það fer mest í taugarnar á mér að til dæmis i gær þá komust þvílíkar ömurðir áfram, eins og Gylfi, Inga Sæland og brúðkaupsviðbjóðurinn.
Hins vegar fengu frábærir listamenn eins og JÁ og Alan fæst atkvæði sem endaði með að JÁ voru send heim.

Alan greyið þekkir auðvitað ekki marga á Íslandi og getur því ekki smalað eins mörgum atkvæðum eins og hinir keppendurnir sem veldur því að hann á kannski á hættu að detta út í næsta þætti þrátt fyrir að vera langlangbesti keppandinn.

Ég tek fram að ég þekki manninn ekki neitt, sá hann í fyrsta skipti í þættinum í gær, en ég ætla samt að vera með áróður hér á síðunni og hvet alla til að kjósa Alan í næsta þætti til að tryggja að horfandi sé á X-faktorinn næstu vikurnar.

Áfram Alan!!