Flottræfilsháttur landans
Þar sem hárið á Naglanum var farið að minna ískyggilega á greiðslu föður míns í kringum 1970 var ferð á hárgreiðslustofuna orðin óhjákvæmileg.
Það væri svosem ekki í frásögur færandi nema ég og klippistúlkan áttum það sameiginlegt að vera báðar nýfluttar að utan en hún og maðurinn hennar höfðu búið í Danmörku um árabil.
Það má segja að hér hafi skrattinn hitt ömmu sína, því við vorum báðar svarnir andstæðingar lúxusskuldasöfnunar landans, og gátum dissað þennan lífsstíl saman.
Hún sagðist einmitt vera að streitast á móti að sogast ekki inn í lífsgæðakapphlaupið hér á Íslandi, enda þekktist svona flottræfilsháttur ekki í hennar samfélagi í Danmörku.
Þegar þau hjónin fluttu heim síðasta vor keyptu þau sér blokkaríbúð í Grafarvogi, sem voru víst titlaðar verkamannablokkir.
Eftir að þau voru nýflutt inn, voru allir sem komu í heimsókn til þeirra að spyrja þau hvenær (ath ekki hvort) þau ætluðu að skipta út dúknum af eldhúsgólfinu og skipta um eldhúsinnréttingar, sem voru ósköp venjulegar IKEA innréttingar. Þau höfðu ekki einu sinni spáð í þessa hluti, en allir vinir þeirra voru hálf hneykslaðir á þeim að ætla ekki að "taka íbúðina í gegn".
Þessi saga fannst mér einmitt lýsandi fyrir hugsunarháttinn í dag.
Fólk kaupir heilu húsin, bara til að rífa þau og byggja nýtt.
Það þarf allt að vera "nýjast" og "flottast", þú ert ekki maður með mönnum nema að vera með sófasett úr Natuzzi á Visa-rað, eða að taka í gegn efri hæðina og skipta yfir í sérinnflutt parket úr sjaldgæfri regnskógaeik sem vex bara á einum hektara í Amazon.
Þá fór ég að velta fyrir mér af hverju við Íslendingar erum með þetta kaupæði og breytingaæði.
Ég held að okkur leiðist bara.
Það er myrkur og norðanvosbúð á þessu blessaða skeri 9 mánuði á ári, og við búum bara til svona vesen til að hafa eitthvað fyrir stafni.
Þess vegna eru allir að breyta og byggja, henda gömlu og kaupa nýtt.
Ég held að flottræflar landsins ættu að fara að finna sér ódýrara áhugamál.
Góða helgi gott fólk.
3 Comments:
vá gæti ekki verið meira sammála þér og hárgreiðslukonunni! og góður punktur með að okkur leiðist hér á skerinu 9 mánuði ársins.. nokkuð til í því :)
Mikið er gott að heyra að það er fleirum sem finnst þetta... ég verslaði mitt sófasett í góða hirðinum og fannst ég geðveikt heppinn.... en það voru nú ekki allir sem ég þekki mjög hrifnir af því framtaki mínu... ;)
Nei sama hér, við keyptum þennan fína leðursófa á 8000 kr í Góða hirðinum og hvað með það þó nokkur Mógadón pillu spjöld hafi dottið út þegar við komum með hann heim. Hann er alveg jafn góður, ef ekki bara þægilegri en eitthvað rándýrt Habitat sett.
Post a Comment
<< Home