Website Counter
Hit Counters

Monday, March 13, 2006

Beint a smettið.

Fín helgi að baki.
Við Snorrilíus vorum voða dugleg að læra á laugardaginn og fórum svo til London seinnipartinn. Um kvöldið fórum við út að borða á marokkóskum veitingastað í Covent Garden. Stemmningin inni á staðnum var alveg ekta marokkósk, innréttingarnar og lyktin minntu mig bara á Marokkó og mér fannst ég bara vera komin aftur þangað. Við sátum á litlum pullum á gólfinu og borðið var ekki nema c.a hálfur metri á hæð og eina lýsingin voru kertin á borðunum. Maturinn var borinn fram í leirpottum og var alveg geggjaður. Ég fékk mér kjúkling með hunangi og döðlum og Snorri fékk sér kjúkling með spínati og fetaosti. Ég borðaði svo mikið að ég nánast sleikti diskinn til að ná síðustu dreggjunum.

Sunnudeginum var svo eytt í faðmi fjölskyldunnar. Byrjuðum á kósý 'brunch' og kíktum svo niður í bæ en það var verið að fagna St. Patrick's day í London en hann er samt ekki fyrr en 17. mars. Svo það sveif írsk stemmning yfir vötnum í miðbæ Lundúna sem var bara gaman að taka þátt í enda eru Írar næstuppáhalds fólkið mitt í Bretlandi á eftir Skotum.
Mér finnast Englendingar leiðinlegasta fólkið í Bretlandi.

Svo náði ég að gera mig að algjöru fífli.
Við vorum að labba yfir götu rétt hjá Leicester Square þegar ég rak tána í kant og flaug beint á smettið úti á miðri umferðargötu. Þar lá ég á maganum og heyrði allt í kringum mig andköf og 'Look, she fell over' 'Is she alright'? Ég staulaðist á lappir að drepast í hnénu með sár á hendinni sem blæddi úr. Ég skammaðist mín svo mikið og fann að það voru allir að glápa á mig en ég passaði mig að líta ekki upp. Snorri studdi mig yfir götuna og hann passaði sig líka að horfa ekki á fólkið í kring, hann skammaðist sín alveg jafn mikið og ég. Enda dettur fólk ekkert á hausinn bara si svona, ekki nema kannski gamalmenni. Ekki ungar stúlkur, bláedrú um hábjartan dag á einum af mestu túristastöðum í London.
Ég var að drepast í hnénu í allan gærdag en það var orðið gott í morgun þegar ég vaknaði, sem betur fer því það má ekkert raska því að ég komist í ræktina, takk fyrir takk. Svo ég gat farið og brennt af mér einhverju af nammidagsátinu.

En nú bíður alvara lífsins með tilheyrandi verkefnaskilum svo það er um að gera að bretta upp ermarnar og hefjast handa.

Med venlig hilsen,
Naglinn

4 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Æj úps - heppin að slasa þig ekki meira en þetta þó.

Kv,

Elsa

12:41 PM  
Blogger TaranTullan said...

Ég er svo frá mér numin, að hafa stömplað hér inn án þess að hafa haft nokkra hugmynd um tilvist þína í bloggheimum.
Ég frussaði svolítið yfir skjáinn þegar ég las hrakfallasöguna þína, ég veit maður á ekki að hlæja að þeim sem meiða sig, en ég gat bara ekki hlátursins varist þegar ég ímynda mér ykkur lútandi höfði þarna, röltandi í burtu.
Og svo, svo ég tali nú svolítið meira, þá var ég að líta yfir farinn veg hjá þér þegar ég rekst á þessa bombu-mynd af þér, dökkrauðkastaníubrúnhærð, þetta fer þér mjög vel, og ég er ekki frá því að þú minnir mig á yngri útgáfu af Madonnu.
Allavega, frábært að frétta af þér. Hafðu það sem allra best, ég mun fylgjast með þér héreftir.
Kveðja Tulla

5:55 PM  
Anonymous Anonymous said...

hæhó, alltaf gaman að lesa bloggið þitt :) flott hrakfalla saga... lenti í svipuðu í glæsibæ um daginn tókst að detta bæði aftur á bak og framfyrir mig!! bara snillingar sem geta svona lagað :)

6:26 PM  
Blogger Naglinn said...

Þetta er ekkert smá skammarlegt, maður er eins og fífl þegar maður stendur upp. Það er eiginlega skárra að fótbrotna því þá vorkennir fólk þér allavega, en þegar það er allt í lagi með mann þá er allt atriðið svo ógeðslega asnalegt.

Gaman að "sjá" ný andlit á blogginu, Jóhanna og Tulla.

9:28 AM  

Post a Comment

<< Home