Midweekday
Bara kominn miðvikudagur og vikan hálfnuð. Ja ég skal segja ykkur það. Vikurnar eru farnar að líða jafn hratt og helgarnar. Helgin sem leið var algjör snilld. Snorri love kom til mín frá Edinborg á fimmtudaginn og við fórum til London á föstudaginn. Á föstudagskvöldið hittum við Nick vin hans Snorra. Fyrst fórum við heim til hans en hann leigir herbergi í Primrose Hill sem er algjört snobbhverfi í London. Hann er ekki að borga nema 270 pund á mánuði fyrir herbergið, sem okkur fannst vera frekar lítið fyrir herbergi á þessum stað í London. En eftir að hafa komið inn til hans verð ég að segja að ég myndi ekki borga krónu fyrir þetta herbergi í þessu húsi því annan eins viðbjóð hef ég aldrei komið inn í. Ég hef séð eyðibýli á Vestfjörðum sem eru vistlegri og vinalegri en þetta hræ sem hann býr í. Eldhúsið var heilsuspillandi og eldavélin var næsti bær við hlóðir og þvottavélin var ábyggilega frá því fyrir stríð. Ég gat ekki komið við neitt þarna inni og leið ekki vel að drekka úr glasinu eftir að hafa séð uppþvottaburstann sem var svartur af skít og ábyggilega verið keyptur 1985.
En svo fórum við út að borða á veitingastað sem heitir Terra og er rétt hjá Oxford Street. Hann var mjög huggulegur og bara hræbillegur. Við fengum okkur öll forrétt og aðalrétt og strákarnir fengu sér desert og matnum var skolað niður með flösku af hvítvíni en allt þetta var innan við 6000 kr íslenskar. Miðað við London prís þá er það ekki dýrt finnst mér. Ég fékk mér uppáhaldið mitt: Sjávarréttarisotto og að öllum öðrum ólöstuðum þá var þetta risotto með því betra sem ég hef smakkað (Galileo á samt ennþá vinninginn).
Eftir að hafa kýlt vömbina kíktum við í einn drykk en þar sem við hjónin erum orðin svo kúltiveruð (lesist nördar) þá fórum við snemma heim. Það fer heldur ekki vel saman að gúffa í sig stórri máltíð og ætla svo að reyna að drekka áfengi á eftir.
Laugardagur og Sunnudagur fóru svo í barnapössun á Joshua nokkrum Þór en þar sýndi Snorri Steinn snilldartakta. Ég þarf nú ekki að hafa áhyggjur af barneignum með svona snilling mér við hlið...ó nei. Hann lék við Joshua í bílaleik, svæfði hann og meira að segja aðstoðaði mig við að skipta á kúkableyju. Við kúguðumst reyndar bæði við þær aðfarir sem sýnir best hvað við erum óhörðnuð í meðferð ungbarna. En af tvennu illu þá er Snorri skárri en ég þegar kemur að börnum.
Á laugardagskvöldið fórum við í bíó á Jarhead sem er bara hin þokkalegasta ræma. Ef eitthvað þá var hún var helst til of löng en það gæti verið sökum óstjórnlegrar þreytu sem hrjáði mig þetta kvöld, því Jake Gyllenhall er svo hrikalega massaður og flottur í þessari mynd að rúmlega 2 tímar af honum hálfnöktum getur bara ekki verið of langur tími.
Svo lá ég í gubbupest og magakveisu eftir helgina sem var algjör viðbjóður en sem betur fer var það bara sólarhringspest. Svo það er allt "ahbbú" núna og Naglinn aftur kominn í gírinn....æfa borða sofa læra...æfa borða sofa læra.
P.S Af hverju heitir Miðvikudagur "Wednesday" á ensku en ekki "Midweekday". Hvað ætli "Wednes" þýði? Kannski ég spyrji Bjarna Fel, hann var nú svo flinkur að bera fram " Sheffield Wednesday", hann kannski veit hvað það þýðir.
2 Comments:
Ojbara! Ekki skil ég hvernig fólk getur búið í viðbjóði...
Þú hefðir átt að sjá þetta hreysi í alvörunni. Ef heilbrigðiseftirlitið kæmi þarna inn myndi allt vera hreinsað út. Ég hafði áhyggjur af smitsjúkdómum og bakteríum þarna inni og er ég nú ekki sýklahrædd alla jafna. Herbergið hans var hrörlegra en hjá Lalla Johns og félögum á Litla-Hrauni.
Post a Comment
<< Home