Website Counter
Hit Counters

Friday, January 27, 2006

Don't worry...be happy

Jæja bara kominn föstudagur og ekkert nema gott um það að segja. Það stefnir í rólegheita helgi hjá Naglanum hvað félagslífið varðar. Stefnan er tekin á kvikmyndahús bæjarins í kvöld á Memoirs of a Geisha með Stephanie vinkonu minni úr skólanum. Hún er frá Jamaica og gæti leikið í Malibu auglýsingunum því það rennur ekki í henni blóðið, hún er svo róleg. Í vetur þurftum við að fara til næsta bæjar til að taka viðtöl fyrir verkefni í skólanum og við vorum á síðustu stundu að ná lestinni. Ég var alveg að farast úr stressi og skipaði henni að kaupa miða á meðan ég tékkaði á brautarpallinum en hún sagði bara með fína Jamaica hreimnum sínum:
"Relax Rainy, everything will be OK" Svo tölti hún í hægðum sínum að lestinni á meðan ég labbaði eins og með rakettu í rassgatinu. Og við náðum lestinni...báðar.
Restin af helginni fer svo í lærdóm og verkefnavinnu en við þurfum að skila einu verkefni á mánudaginn sem við Stephanie ætlum að vinna saman á laugardaginn. Svo liggja fyrir tvær ritgerðir sem ég á að skila akkúrat helgina sem ég ætla uppeftir til Edinborgar svo planið er að hespa þeim bara af sem fyrst.

Heimilishaldið á 56 Church Road gengur áfram sinn vanagang. Reyndar eru allir í húsinu að brjálast á nördinum og Andy stakk meira að segja upp á að við myndum safna undirskriftum allra fyrir áskorun að flytja út og fara með til hans. Ég hélt að ég hataði hann mest en mér sýnist að ég sé að mæta harðri samkeppni frá Andy. Nördinn skildi eftir pasta í sigti á borðinu og það er búið að vera þar núna í 2 daga og Andy var orðinn svo pirraður á því að hann setti sigtið inn í skáp hjá Nördinum. Það er bara vonandi að fíflið nái skilaboðunum.....Þrífðu eftir þig drengur!!!!
Honum var reyndar skipað að þrífa eldhúsið um síðustu helgi og hann gerði það nú bara nokkuð vel verð ég að segja. En hann var engan veginn að nenna því og stakk meira að segja upp á að við myndum öll splæsa saman í ræstingakonu til að koma einu sinni í viku. Sem betur fer var ég ekki á staðnum þegar þetta bull valt upp úr honum því ég hefði ekki verið ábyrg gerða minna. Er hann fokking ekki í lagi???? Hvar í hans þröngsýnu vídd heldur hann að ég, fátækur námsmaður, ætli að eyða peningunum mínum sem eru af skornum skammti nú þegar í að láta einhverja kellingu þrífa þegar við erum öll fullfær um að þrífa sjálf og tekur ekki nema í mesta lagi 15 mín á mann á viku ef allir leggja sitt af mörkum....sem er einhvern veginn ekki að gerast samt. Planið er að hafa húsfund fljótlega og ræða þessi mál.

Annars óska ég öllum góðrar helgar!!

Adieu

1 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Já það er ekki að spyrja að íslenska stressinu...

3:18 PM  

Post a Comment

<< Home